Samfylkingin mælist með 18,5 prósent fylgi í nýrri könnun sem Zenter rannsóknir hafa gert fyrir Fréttablaðið og fréttablaðið.is. Flokkurinn bætir umtalsvert við sig, eða 4,6 prósentustigum, milli kannana fyrirtækisins á fylgi stjórnmálaflokka og er með mun sterkari stöðu þar en í könnunum annarra fyrirtækja sem framkvæma slíkar, eða MMR og Gallup.
Sjálfstæðisflokkurinn mælist áfram sem áður stærsti flokkur landsins með 19,6 prósent, en hann hefur verið að mælast undir 20 prósent í síðustu þremur könnunum MMR líka.
Fylgisaukning Miðflokks ekki sýnileg
Sú fylgisaukning sem mældist hjá Miðflokknum í könnun MMR sem birtist í síðustu viku, og gerði hann að næst stærsta flokki landsins með tæplega 15 prósent fylgi, er ekki sjáanleg í niðurstöðum Zenter. Hann mælist þar með 11,6 prósent fylgi og er fjórði stærsti flokkur landsins á eftir Sjálfstæðisflokki, Samfylkingu og Vinstri grænum, sem mælast með 12,7 prósent fylgi.
Viðreisn kemur rétt á eftir Miðflokknum með 11,3 prósent fylgi og Píratar, sem mældust með undir níu prósent stuðning í könnun MMR í síðustu viku, mælast með 10,9 prósent fylgi hjá Zenter.
Alls segjast 7,3 prósent landsmanna styðja Framsóknarflokkinn og fjögur prósent Flokk fólksins. Sósíalistaflokkur Íslands mælist með 2,9 prósent fylgi.
Í frétt á vef Fréttablaðsins um könnunina segir að athygli veki að aðeins rúm 70 prósent aðspurðra svöruðu spurningunni um hvaða flokk fólk myndi kjósa ef gengið yrði til þingkosninga í dag.
Könnunin var gerð á tímabilinu 10.-14. október síðastliðinn en hún var send á könnunarhóp Zenter rannsókna. Í úrtaki voru 2.300 einstaklingar 18 ára og eldri en svarhlutfall var 53 prósent. Gögnin voru vigtuð eftir kyni, aldri og búsetu.