Samningar eru sagðir, í breskum fjölmiðlum, vera að nást á milli stjórnvalda í Bretlandi og forystu Evrópusambandsins, um forsendur útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, sem dagsett er 31. október næstkomandi.
Samkvæmt skrifum The Telegraph er Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, sagður hafa kynnt helstu atriði, sem náðst hefur saman um, fyrir helstu andstæðingum fyrri samninga innan Íhaldsflokksins sem breska þingið hefur hafnað.
Afar erfiðlega hefur gengið að ná saman um samning fyrir útgöngu Breta, og þurfti Theresa May að lokum að hætta sem forsætisráðherra, eftir að breska þingið hafnaði ítrekað þeim samningi sem lagður var í atkvæði þingsins.
Johnson hefur sagt að það komi ekki til greina að bíða lengur með útöngu en til 31. október. Aðalsamningamaður Evrópusambandsins, Michel Barnier, lét hafa eftir sér í gær, að nú þyrfti að ná góðum málum, sem samkomulag hefði náðst um, niður í lagatexta sem allir gætu sætt sig við.
Þá sýndu fjármálamarkaðir merki þess, að von væri um samning, og styrktist gengi pundsins gagnvart bæði Bandaríkjadal og evru, um 1,5 prósent, sem þykir mikið innan dags.
Samkvæmt skrifum breska ríkisútvarpsins BBC hefur mikið verið lagt upp úr því að halda helstu efnisatriðum þétt að þeim sem eru að sinnan samningaviðræðunum, en helstu niðurstöður verða kynntar fyrir forystu Evrópusambandsins í dag, miðvikudag. Málið kemur síðan til kasta breska þingsins á næstunni, ef samkomulag næst.
Umtalsverðir hagsmunir eru í húfi fyrir Ísland, en Bretland er með stærstu viðskiptaþjóðum Íslands, þegar kemur að vörum og þjónustu. Bretland er stærsta viðskiptalandið þegar kemur að sjávarafurðum og meðal stærstu viðskiptaþjóða þegar kemur að ferðaþjónustu.