„Erfitt er að finna jákvæðar afleiðingar brotthvarfsins. Þannig getur Bretland einnig aukið ríkisútgjöld innan ESB og búið til uppsveiflu í hagkerfi sínu, haft skatta lága og bætt samkeppnisstöðu sína á innri markaði ESB. Reyndar var innri markaðurinn hugmynd Thatcher stjórnarinnar á seinni hluta níunda áratugarins, þ.e.a.s. Breta sjálfra, og ætlað að auka samkeppni á milli fyrirtækja.“
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ítarlegri grein Gylfa Zoega, hagfræðiprófessors, í Vísbendingu, um fyrirhugað brotthvarf Breta úr Evrópusambandinu. Ítarlega er fjallað um Brexit í Vísbendingu sem kemur til áskrifenda á morgun.
Samningur hefur náðst milli Breta og Evrópusambandsins um útgöngu, en hún er fyrirhuguð 31. október, en ekki liggur ljóst fyrir hvernig meðferð þingsins verður á samningnum eða hver lokaniðurstaða málsins verður. Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, hefur barist fyrir því að fresta ekki útgöngu Breta.
Ísland á mikilla hagsmuna að gæta, en Bretland er stærsta einstaka markaðssvæði fyrir íslenskar sjávarafurðir og breskir ferðamenn hafa einnig verið duglegir að heimsækja Ísland, svo fátt eitt sé nefnt.
„En þótt Bretland geti þrifist efnahagslega utan ESB en með aðgang að innri markaðinum þá er ekki hægt að segja sömu sögu um smáríki og vanþróuð ríki Austur Evrópu. Öllu skiptir fyrir slík ríki, Ísland þar með talið, að njóta þess að fylgja sameiginlegum reglum á innri markaði og hafa hagkerfi opin fyrir utanríkisviðskiptum til þess að fyrirtæki hagnist sem mest af því að búa til vörur og þjónustu til útflutnings í stað sjálftöku (e. rent seeking) innan lands sem svo mjög einkenndi íslenskt efnahagslíf á fyrri tímum,“ segir í grein Gylfa.
Greinin birtist í heild sinni í Vísbendingu sem kemur út á morgun. Hægt er að gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.