Helgi Magnússon og tengdir aðilar hafa keypt helmingshlut 365 miðla í Torgi ehf., útgáfufélagi Fréttablaðsins. Fyrr á þessu ári keypti Helgi hinn helminginn í félaginu.
Samhliða hefur Ólöf Skaftadóttir látið af störfum sem ritstjóri blaðsins en við starfi hennar tekur Jón Þórisson. Hann var áður forstjóri VBS fjárfestingabanka og starfaði um skeið sem viðskiptablaðamaður á Morgunblaðinu. Jón hefur undanfarin ár starfað sem lögfræðingur. Hann mun starfa við hlið Davíðs Stefánssonar, sem ráðinn var annar ritstjóri Fréttablaðsins fyrr á þessu ári. Davíð hafði að mestu starfað við almannatengsl og ráðgjöf áður en hann tók við því starfi.
Frá þessu er greint á vef Fréttablaðsins. Þar segir enn fremur: „Jóhanna Helga Viðarsdóttir, sem gegnt hefur stöðu framkvæmdastjóra hjá Torgi verður nú forstjóri og útgefandi Torgs. Fyrirhugað er að flytja starfsemi Hringbrautar á Hafnartorg þar sem ritstjórn Fréttablaðsins og frettabladid.is er til húsa. Fyrirhugað er að Guðmundur Örn Jóhannsson taki við starfi framkvæmdastjóra sölu, markaðsmála og dagskrárgerðar sameinaðs fyrirtækis og Sigmundur Ernir Rúnarsson verði áfram sjónvarpsstjóri.
Ætlunin er að eigendur Hringbrautar leggi fyrirtæki sitt inn í Torg og eignist hlutabréf í félaginu. Það eru þeir Sigurður Arngrímsson, gegnum félag sitt Saffron, og Guðmundur Örn Jóhannsson. Aðrir hluthafar í sameinuðu félagi verða Jón Þórisson og Helgi Magnússon sem verður eigandi meirihluta hlutafjár og mun gegna formennsku í stjórn Torgs ehf.“
Með þessum kaupum lýkur áralöngu eignarhaldi hjónanna Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Ingibjargar Pálmadóttur á íslenskum fjölmiðlum, en þau hafa verið aðaleigendur 365 miðla og fyrirrennara þeirrar fjölmiðlasamsteypu árum saman.
Greint var frá því í júní síðastliðnum að félag í eigu Helga Magnússonar hefði keypt helmingshlut í Torgi. Skömmu áður hafði Davíð Stefánsson verið ráðinn ritstjóri og hávær orðrómur hafði verið um að það tengdist kaupum Helga á blaðinu.
Fréttablaðið var lengi hluti af stærsta einkareknu fjölmiðlasamsteypu landsins, 365 miðlum. Hún var brotin upp seint á árinu 2017 þegar ljósvakamiðlar hennar, fjarskiptastarfsemi og fréttavefurinn Vísir voru seld til Vodafone á Íslandi, sem í dag heitir Sýn. Það félag tók við hinum keyptu eignum í desember 2017. Rekstur Fréttablaðsins og nýs fréttavefs, frettabladid.is, var í kjölfarið settur í felagið Torg ehf. sem er í eigu 365 miðla.
Helgi hefur verið umsvifamikill í íslensku viðskiptalífi árum saman. Hann er stór hluthafi í Marel, langverðmætasta félags íslensku kauphallarinnar, og stjórnarformaður Bláa lónsins þar sem hann er einnig hluthafi.
Fréttablaðið er fríblað sem er gefið út sex sinnum í viku og dreift í 80 þúsund eintökum. Auk blaðsins rekur Torg tímaritið Glamour og vefina frettabladid.is og markadurinn.is.