„Þjóðin hefur nú verið svikin af stjórnvöldum um þessa nýju stjórnarskrá í sjö ár. Núverandi ríkisstjórn virðist ekki ætla að færa þjóðinni þá heilsteyptu stjórnarskrá sem fólkið bíður enn eftir.“
Þetta skrifar Jóhanna Sigurðardóttir, fyrrverandi forsætisráðherra, í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag. Tilefni greinarinnar er að á morgun eru sjö ár liðin frá því að tillögur stjórnlagaráðs um nýja stjórnarskrá voru samþykktar í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Vakti athygli víðsvegar um heim
Jóhanna segir að það sem hafi verið sérstaklega eftirtektarvert við stjórnlagaráð var að fólk úr ólíkum stéttum víðsvegar að úr þjóðfélaginu hafi verið „algjörlega einhuga“ um þær tillögur sem lagðar voru fyrir Alþingi. Auk þess hafi það aðeins tekið ráðið fjóra mánuði að fullgera tillögur að nýrri stjórnarskrá sem Jóhanna segir að sé afrek.
„Tillögur stjórnlagaráðs vöktu athygli víðsvegar um heim fyrir lýðræðislegt ferli og þær endurspegluðu raunar nýtt Ísland. Leiða má að því líkum að þær hefðu breytt ýmsu í þjóðfélaginu m.a. í þeim spillingarmálum, sem upp hafa komið síðustu árin, hefðu þær komist til framkvæmda,“ segir Jóhanna.
Enn fremur segir hún að það hafi ekki vantaði vilja hjá ríkisstjórn hennar til að lögfesta „þennan nýja samfélagssáttmála“ en að það hafi mistekist vegna „heiftúðugrar og óbilgjarnar stjórnarandstöðu“, þá sérstaklega Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
„Þeir svifust einskis í nær fordæmalausu málþófi og beittu öllum brögðum til að koma í veg fyrir að nýr samfélagssáttmáli, sem samþykktur hafði verið með tveim þriðju hluta greiddra atkvæða í þjóðaratkvæðagreiðslu, næði fram að ganga. Lýðræðið var fótum troðið,“ segir Jóhanna og bætir við að tilraun Hæstaréttar til að ógilda kosningu til stjórnlagsráðs sé hneyksli blettur á réttarsögunni.
Þjóðin líði ekki að tekið sé frá henni lýðræðislegt stórvirki
Enn fremur segir Jóhanna að svo virðist sem núverandi ríkisstjórn ætli ekki að færa þjóðinni þá „heilsteyptu stjórnarskrá“ sem fólkið bíði enn eftir. „Kannski á að samþykkja lítinn hluta hennar á þessu kjörtímabili m.a. um þjóðareign á landi. Hætta er á með Sjálfstæðisflokkinn við stjórnvölinn verði valinn lægsti samnefnari og haldlítið auðlindaákvæði,“ segir Jóhanna.
Hún þakkar að lokum Stjórnarskrárfélaginu, undir öflugri forystu Katrínar Oddsdóttur, fyrir skelegga og þrautseiga baráttu við að vinna málinu brautargengi. „Ég er sannfærð um að þjóðin mun ekki líða að stjórnmálamenn taki frá henni það lýðræðislega stórvirki sem þessi einstaki samfélagssáttmáli er, þannig að nýtt Ísland verði að veruleika,“ segir Jóhanna.