„Guð forði okkur frá því að Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkurinn selji aftur bankana. Ef ég væri VG myndi ég láta mig hverfa ef það gerist.“
Þetta sagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í umræðum mögulega sölu á eignarhlutum í ríkisbönkunum, sem fór fram á Alþingi í dag.
Þar var meðal annars rætt um stefnuleysi stjórnvalda þegar kæmi á málinu, en Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að það væri erfitt að glöggva sig á því hvað stjórnvöld raunverulega vildu gera þegar kæmi að sölu á eignarhlutum í bönkunum.
Hún sagði að forgangsatriði ætti að vera aðskilja viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi, þar sem ríkið væri alltaf með vandamálin í höndunum ef bankar myndu lenda í vanda.
Mikilvægt væri að greina á milli áhættusamrar bankastarfsemi og síðan hefðbundinnar viðskiptabankastarfsemi.
Íslenska ríkið er eigandi Íslandsbanka og Landsbankans, en samanlagt eigið fé bankanna tveggja nemur 415 milljörðum króna.
Í umræðunum sagði Björn Leví ekki greina mikinn lærdóm af hruni fjármálakerfisins, eða því sem hefði gengið á áður en kerfið hrundi. „Við höfum lært nægilega mikið til að lenda á peningaþvættislista. Við höfum lært nægilega mikið til að við vitum ekki einu sinni svarið við því hvernig gengur,“ sagði Björn Leví.