Gylfi Magnússon, dósent í viðskiptafræði og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, gagnrýnir að með nýju frumvarpi iðnaðar- og nýsköpunarráðherra sé lagt til að koma í veg fyrir að Samkeppniseftirlitið geti borið niðurstöður áfrýjunarnefndar undir dómstóla og að eftirlitið geti þvingað fram breytingar á skipulagi fyrirtækja. Frá þessu greinir hann í stöðuuppfærslu á Facebook í dag.
„Þetta eru ekki ný baráttumál mógúlanna, hugmyndir í þessa veru hafa oft verið viðraðar áður en ekki fengið brautargengi vegna harðrar andstöðu. Nú sjá þeir hins vegar greinilega lag til að knýja þetta fram,“ skrifar Gylfi.
Fyrirtæki meti sjálft hvort að skilyrði undanþágu fyrir samstarf séu uppfyllt
Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttur, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, lagði fram frumvarp um breytingar á samkeppnislögum í samráðsgátt stjórnvalda í dag. Frumvarpið er liður í aðgerðum stjórnvalda til stuðnings lífskjarasamnings aðila vinnumarkaðarins frá því í vor og miða breytingar að því að einfalda framkvæmd samkeppnislaganna og auka skilvirkni.
Með frumvarpinu er meðal annars lagt til að veltumörk tilkynningarskyldra samruna hækki og breytingar lagðar til á málsmeðferð samrunamála.
Jafnframt eru lagðar til breytingar á framkvæmd undanþága frá samkeppnislögum þess efnis að fyrirtæki meti sjálf hvort skilyrði undanþága séu uppfyllt.
Þá er lagt til að heimildir Samkeppniseftirlitsins til íhlutunar í starfsemi fyrirtækja án þess að þau hafi gerst brotleg verði felld út sem og heimildir eftirlitsins til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla verði felldar brott. Í frumvarpinu er enn fremur lagt til að forstjóri Samkeppniseftirlitsins verði skipaður tímabundið til 5 ára í senn og að aðeins verði heimilt að skipa sama manninn tvisvar í embætti.
Ekki nýtt baráttumál mógúlanna
Gylfi gagnrýnir í færslu sinni að koma eigi að koma veg fyrir að Samkeppniseftirlitið geti þvingað fram breytingar á skipulagi fyrirtækja þegar ekkert annað virðist duga til að ná fram eðlilegri samkeppni. Auk þess sé með frumvarpinu lagt til að fella burt heimildir eftirlitsins til að skjóta úrskurðum áfrýjunarnefndar samkeppnismála til dómstóla sem Gylfi segir að gæti meðal annars að hagsmunum brotaþola.
Hann segir að hugmyndir í þessu veru hafi oft verið viðraðar áður en ekki fengið brautargengi vegna harðar andstöðu. „„Einfalda framkvæmd samkeppnislaganna og auka skilvirkni“ hljómar einhvern veginn betur en „Láta blauta drauma fákeppnismógúla rætast með því að draga tennurnar úr samkeppniseftirliti á Íslandi eins og frekast er unnt“,“ skrifar Gylfi.
„Einfalda framkvæmd samkeppnislaganna og auka skilvirkni“ hljómar einhvern veginn betur en „Láta blauta drauma...
Posted by Gylfi Magnússon on Monday, October 21, 2019