Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði stefnu stjórnvalda í málum sem tengjast sölu á ríkisbönkunum óljósa, og það væri hálfgerður samkvæmisleikur að geta sér til um hvernig hún væri.
Hún sagði Sjálfstæðisflokkinn tala fyrir mikilvægi þess að selja eignarhluti í ríkisbönkum, til að minnka áhættu, en þannig háttaði nú samt til að ríkið myndi alltaf bjarga kerfislægt mikilvægum bönkum ef þeir lentu í vandræðum. Þannig að áhættan væri alltaf hjá ríkinu hvernig sem eignarhaldið væri.
Sagði hún að það ætti frekar að einblína á að skilja betur að áhættusækna starfsemi og hefðbundna viðskiptabankastarfsemi. „Ríkið mun hvort sem er koma kerfislega mikilvægum bönkum til bjargar fari þeir á hausinn,“ sagði Oddný.
Íslenska ríkið á Íslandsbanka að fullu og Landsbankann að nær öllu leyti, eða rúmlega 99 prósent. Eigið fé Íslandsbanka er um 175 milljarðar og eigið fé Landsbankans um 240 milljarðar. Samanlagt eigið fé ríkisbankanna er því 415 milljarðar króna.
Sé mið tekið af markaðsvirði Arion banka í kauphöllinni þessi misserin, þá nemur markaðsvirði bankanna 280,9 milljörðum króna. Markaðsvirði Arion banka er um 132 milljarðar króna, eða sem nemur um 0,67 sinnum eigið fé hans um mitt þetta ár, sem var 195 milljarðar.
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, svaraði Oddnýju og sagði orð hennar nú skjóta skökku við. Hún hefði sagt lagt fram frumvarp á Alþingi sem fjármálaráðherra árið 2012, þar sem mælt var fyrir sölu á ríkisbönkunum. „Það eru sex ár síðan háttvirtur þingmaður mælti fyrir frumvarpinu,“ sagði Bjarni.
Hann sagði enn fremur að það kæmu nokkrar leiðir til grein við sölu á bönkunum, en áður en ákveðið verði með hvaða hætti ætti að stíga þessi skref, þyrfti að leita ráðgjafar frá Bankasýslu ríkisins. Forstjóri hennar er Jón Gunnar Jónsson og stjórnina skipa Lárus L. Blöndal, stjórnarformaður, Margrét Kristmannsdóttir, framkvæmdastjóri, varaformaður og Vilhjálmur Bjarnason, lektor.
Uppfært: Það frumvarp sem Oddný Harðardóttir lagði fram árið 2012 tók til umgjarðar um sölu á hlutum ríkisins í bönkum, en var ekki lagt fram til að selja eignarhluti í bönkunum. Á þeim tíma átti ríkið eignarhlut í Arion banka, 13 prósent, sem nú hefur verið seldur, og Landsbankann, en Íslandsbanki var í eigu kröfuhafa.