Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra segir á Facebook-síðu sinni að undanfarna daga hafi rignt yfir hann skeytum og símtölum með ábendingum um myndina The Laundromat sem aðgengileg er á Netflix.
Í kvikmyndinni, sem sýnd er á Netflix um þessar mundir, er fjallað um Panamaskjölin og lögfræðistofuna Mossack Fonseca. „Svo illa vill til að í henni birtist mynd af mér þegar fjallað er um spillta þjóðarleiðtoga. Eins og fólki er eflaust í fersku minni þá var atburðarásin á þann veg að þegar upp komst um eignir Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, þáverandi forsætisráðherra, í skattaskjólum Mossack Fonseca var hann knúinn til að segja af sér,“ skrifar ráðherrann.
Hann tók við sem forsætisráðherra í apríl árið 2016 eftir mikið umrót í stjórnmálum á Íslandi vegna umtalaðra uppljóstrana í fjölmiðlum. Hann var varaformaður Framsóknar á þessum tíma en var síðan kjörinn formaður flokksins í byrjun október sama ár. Hann tók við embættinu af Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni sem síðar stofnaði Miðflokkinn.
Sigurður Ingi segir í stöðuuppfærslu sinni á Facebook að þetta hafi verið erfiðir tímar í íslenskum stjórnmálum og að Íslendingar hafi verið fullir af réttlátri reiði og því mikil áskorun að setjast í stól forsætisráðherra. „Síðan hef ég litið á það sem eitt helsta verkefni mitt og annarra stjórnmálamanna að efla traust í íslensku samfélagi og er sú ríkisstjórn sem nú situr við völd stórt skref í að skapa stöðugleika og mynda sátt í samfélaginu.“
Einhverjir kvartað til Netflix
Í færslunni þakkar hann enn fremur þeim sem hafi haft samband við hann fyrir þann hlýhug og traust sem hann hafi fundið en einhverjir hafi að eigin frumkvæði skrifað Netflix og kvartað yfir rangri framsetningu.
„Eins og mér þykir það sárt og óþolandi að vera bendlaður við þessi spillingarmál í The Laundromat þá verður myndinni vart breytt úr þessu. Falsfréttir eru og verða vandamál á tækni- og upplýsingaöld. Það er áskorun fyrir fjölmiðlaheiminn og framleiðendur efnis að hafa sannleikann ávallt að leiðarljósi,“ skrifar hann að lokum.
Undanfarna daga hefur rignt yfir mig skeytum og símtölum með ábendingum um myndina The Laundromat sem er aðgengileg á...
Posted by Sigurður Ingi Jóhannsson on Monday, October 21, 2019