Kevin McAllister, yfirmaður farþegaþotuframleiðslu Boeing, þar með talið 737 Max vélanna, hefur verið rekinn. Tilkynnt var um brottreksturinn eftir stjórnarfund Boeing í San Antonio í Texas í dag.
Dennis Muilenburg, forstjóri félagsins, sagði í tilkynningu að McAllister hefði sinnt sínu starfi óaðfinnalega og af einurð á tíma sínum hjá Boeing, en nú væri komið að leiðarlokum. Við starfi hans tók Stan Deal, sem starfað hefur lengi hjá Boeing og nú síðast sem yfirmaður þjónustu félagsins.
Í umfjöllun Seattle Times segir að Deal hafi mikla reynslu af framleiðslu Boeing á Seattle svæðinu, og muni hafa yfirumsjón með framleiðslu og uppfærslu á 737 Max vélunum. Er talið að Boeing vilji með þessu reyna að ávinna traust hjá bandarískum flugmálayfirvöldum, sem nú eru að meta hvenær mögulegt verður að aflétta kyrrsetningu á Max vélunum, sem verið hefur í gildi frá því í lok mars þessu ári. Flugslys, fyrst 29. október í Indónesíu og síðan 13. mars í Eþíópíu, hafa verið rakin til galla í Max vélunum, en 346 létust í slysunum, allir um borð í báðum vélunum.
Kyrrsetningin hefur haft gríðarleg áhrif. Ekki bara á Boeing heldur ekki síður flugfélögin sem reiða sig á Max vélarnar í flugi, og er Icelandair þar á meðal, eins og fram hefur komið.
Áætlanir gera ráð fyrir að vélarnar geti komist í loftið í janúar, en í samtali við Reuters í gær sagði yfirmaður hjá flugmálayfirvöldum í Evrópu að horft sé til þess að aflétting á kyrrsetningu geti komið til í janúar, en það sé þó erfitt að segja til um það. Líklegt sé að ákvörðunin um alþjóðlega afléttingu á kyrrsetningu muni koma í beinu samhengi við ákvörðun bandarískra flugmálayfirvalda, sem vinna að nákvæmri rannsókn á Max vélunum og framleiðsluferli Boeing.
Markaðsvirði Boeing, sem er stærsta útflutningsfyrirtæki Bandaríkjanna, er nú 189 milljarðar Bandaríkjadala, og hefur það lækkað um 30 prósent frá því að Max vélarnar voru kyrrsettar.
Markaðsvirði Icelandair er nú um 32 milljarðar, en markaðsvirðið hækkaði um tæplega 6 prósent í dag. Þrátt fyrir það þá hefur markaðsvirðið lækkað um 42 prósent frá því að Max vélarnar voru kyrrsettar.