Helmingur landsmanna segist hafa litlar eða engar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakka ESB á hagsmuni þjóðarinnar en um þriðjungur hefur miklar áhyggjur. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR sem framkvæmd var dagana 9. til 16. september síðastliðna.
Alls kváðust 22 prósent hafa mjög miklar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakkans, 12 prósent kváðust hafa frekar miklar áhyggjur, 16 prósent bæði/og, 17 prósent frekar litlar áhyggjur og 33 prósent mjög litlar eða engar áhyggjur.
Í frétt MMR kemur fram að fyrirtækið hafði áður mælt hversu fylgjandi eða andvígir landsmenn væru gagnvart innleiðingu þriðja orkupakkans á Íslandi en í könnun sem framkvæmd var í júní á þessu ári reyndust 46 prósent svarenda andvígir innleiðingunni og 34 prósent hlynntir henni.
Nokkur munur reyndist á áhyggjum karla og kvenna en karlar reyndust líklegri en konur til að segjast hafa litlar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakkans á hagsmuni þjóðarinnar en 41 prósent karla sögðust hafa mjög litlar eða engar áhyggjur, samanborið við 23 prósent kvenna. Þá kváðust 27 prósent kvenna hafa mjög miklar áhyggjur af áhrifum orkupakkans en 19 prósent karla.
Svarendur í elsta aldurshópnum, 67 ára og eldri, voru líklegri en svarendur annarra aldurshópa til að segjast hafa miklar áhyggjur af áhrifum innleiðingar orkupakkans, eða 41 prósent, en 34 prósent þeirra sögðust hafa mjög miklar áhyggjur. Svarendur yngsta aldurshópsins, 18 til 29 ára, reyndust hins vegar líklegastir allra aldurshópa til að segjast hafa litlar áhyggjur, eða 55 prósent, en 41 prósent þeirra kváðust hafa mjög litlar eða engar áhyggjur.
Þá reyndust svarendur búsettir á höfuðborgarsvæðinu líklegri til að segjast hafa litlar áhyggjur af áhrifum pakkans á hagsmuni þjóðarinnar heldur en íbúar landsbyggðarinnar en 37 prósent höfuðborgarbúa kváðust hafa mjög litlar eða engar áhyggjur. Þá kváðust 28 prósent landsbyggðarbúa hafa mjög miklar áhyggjur, samanborið við 19 prósent þeirra af höfuðborgarsvæðinu.
Miðflokkurinn sker sig úr
Kjósendur Miðflokksins hafa langmestar áhyggjur af áhrifum þriðja orkupakkans á hagsmuni þjóðarinnar. Alls hafa 72 prósent kjósenda hans mjög miklar áhyggjur af áhrifunum og alls 90 prósent þeirra hafa mjög miklar eða frekar miklar áhyggjur af honum.. Næst mestar áhyggjur eru hjá kjósendur Framsóknar, þar sem 26 prósent segjast hafa mjög miklar áhyggjur af áhrifum orkupakkkans og 11 prósent til viðbótar frekar miklar áhyggjur.
Athygli vekur að kjósendur Sjálfstæðisflokksins virðast nokkuð rólegir yfir málinu, en mikið var látið með meinta úlfúð innan flokksins þegar orkupakkaumræðan stóð sem hæst. Þar segjast einungis sjö prósent kjósenda að þeir hafi mjög miklar áhyggjur af áhrifum orkupakkans á íslenska hagsmuni og 13 prósent frekar miklar áhyggjur. Einungis á meðal Pírata (sex prósent) eru mjög miklu áhyggjurnar minni. Vert er þó að taka fram að fylgi Sjálfstæðisflokksins hefur mælst sögulega lágt í könnunum MMR upp á síðkastið og verið undir 20 prósent nokkrar kannanir í röð. Því kann að vera að hluti af þeim hópi sem var óánægður með orkupakkamálið sé nú ákveðinn í að kjósa annan flokk og mælist því á meðal kjósenda hans nú.
Minnstu áhyggjurnar af málinu eru á meðal þeirra tveggja flokka sem hafa Evrópusambandsaðild á stefnuskrá sinni, Samfylkingu og Viðreisn. Innan þeirra raða hafa 82-83 prósent kjósenda flokkanna litlar eða engar áhyggjur af áhrifum orkupakkans á íslenska hagsmuni.