Gylfi Magnússon, dósent við Háskóla Íslands og fyrrverandi viðskiptaráðherra, segir að allar breytingar sem miða að því að veikja samkeppnislög og eftirlit með samkeppni séu vond skref fyrir íslenskt efnahagslíf.
Hann segir auk þess að vegna þess hve íslenskt efnahagslíf sé lítið og einangrað, í samanburði við alþjóðleg markaðssvæði, þá sé þeim mun mikilvægara að hafa virkt eftirlit með samkeppni. Annars geti fyrirtæki nýtt sér það til að skapa einokunarstöðu og þannig unnið gegn almenningi.
Þetta kom fram í Kastljósi á RÚV í kvöld, þar sem Gylfi ræddi um fyrirhugaðar breytingar á samkeppnislöggjöfinni við Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins.
Halldór segir að breytingarnar, sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra samkeppnismála, hefur lagt fram, séu til þess fallnar að færa regluverkið nær því sem þekkist á Norðurlöndum og í Evrópu. Enda hljóti Íslendingar að vilja miða sig við nágrannaríki sín og reyna að hafa sambærilegt regluverk á íslenskum samkeppnismarkaði og gengur og gerist á Norðurlöndunum og í Evrópu. Hann telji að það yrði til bóta.
Þetta sagði Gylfi einfaldlega ekki vera rétt. Regluverkið á Íslandi væri einmitt svipað því sem þekktist í Evrópu og á Norðurlöndunum, og í nákvæmisatriðum oft á tíðum, en fyrirhugaðar breytingar miði að því að veikja eftirlitið og það sé afturför fyrir almenning í landinu.
Halldór segir það kall og svar tímans að leiðbeinandi hlutverk eftirlitsstofnana verði ríkara og að það yrði lögð sú skylda á herðar eftirlitsstofnananna að veita fyrirtækjum leiðbeiningar um það með hvaða hætti þau geti farið að lögum sem heyra undir stofnunina.
Meginreglur samkeppnisréttar verði áfram til staðar og fyrirtækjum yrði gert að fara eftir þeim. „Það er enginn að tala um það að við sinnum eftirliti með okkur sjálfum. Menn þurfa að hlíta lögum og reglum eftir sem áður, og ef þeir gerast brotlegir við lög, getur Samkeppniseftirlitið að sjálfsögðu stigið inn.“
Að mati Halldórs liggur fyrir að neytendur muni á endanum bera kostnaðinn af íþyngjandi eftirlitsiðnaði, sem hafi vaxið mikið á undanförnum. „Ég geld varhug við það að meiri og viðameiri reglur skili endilega virkari samkeppni og betra eftirliti.“
Gylfi var heldur ekki sammála þessari röksemdarfærslu Halldórs Benjamíns og sagði hana sambærilega þeim rökum sem færð voru fyrir því að veikja Fjármálaeftirlitið fyrir hrun. Það hafi skilið eftir sig bitra reynslu. Halldór taldi þá samlíkingu Gylfa vera þunna og einfalda.