Icelandair hefur uppfært áætlun sína um hvenær 737 Max vélarnar frá Boeing gætu farið í loftið, og gerir áætlun félagsins nú ekki ráð fyrir að þær komist í loftið fyrr en eftir febrúar mánuð á næsta ári.
Fyrri áætlun, samkvæmt tilkynningu frá félaginu til kauphallar, hafði gert ráð fyrir að kyrrsetningu yrði aflétt í janúar.
Viðræður milli Icelandair og Boeing, um bótagreiðslur vegna þess fjártjóns sem Icelandair hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar, eru í gangi, að því er segir í tilkynningu Icelandair.
Frá því í mars á þessu ári hafa 737 Max vélarnar frá Boeing verið kyrrsettar, eftir að tvær vélar af þeirri gerð höfðu togast niður til jarðar með þeim afleiðingum að 346 létust, allir um borð í báðum vélunum. Slysin urðu í Indónesíu 29. október í fyrra og síðan 13. mars í Eþíópíu.
Fyrstu niðurstöður rannsóknar slyssins í Indónesíu voru kynntar í vikunni, og eru þær á þá leið að galli í MCAS kerfi í vélunum, sem á að sporna gegn ofrisi, hafi verið helsta orsök slyssins.
Kyrrsetning á vélunum kemur harkalega niður á rekstri Icelandair, en félagið hefur tapað 11 milljörðum á síðustu tveimur ársfjórðungum, og má rekja tapið að miklu leyti til kyrrsetningarinnar.
Icelandair hafði upphaflega gert ráð fyrir 9 vélum af Max gerð í flota sinn í vetur, en vegna kyrrsetningarinnar hafa þær áætlanir verið í uppnámi alveg frá því í mars og félagið þurft að leita leiða til að halda uppi þjónustu sinni með öðrum hætti og notast við aðrar vélar.
Bogi Nils Bogason, forstjóri, hefur sagt að það hafi gengið vel hjá félaginu að glíma við fordæmalausar aðstæður, en að þær séu krefjandi. „Eins og við höfum áður sagt, teljum við ólíklegt að MAX vélarnar verði komnar aftur í rekstur fyrir lok þessa árs. Við viljum hins vegar lágmarka áhrif á farþega okkar og framlengja þetta tímabil með góðum fyrirvara, enda gott svigrúm hjá okkur á þessum árstíma að nýta aðrar vélar í flotanum hjá okkur,“ segir Bogi Nils í tilkynningu.
Markaðsvirði Icelandair hefur sveiflast mikið, en það hefur lækkað um tæplega 40 prósent á þessu ári, og er nú um 33 milljarðar. Eigið fé félagsins var um mitt þetta ár um 55 milljarðar.