Landsbankinn hagnaðist um 14,4 milljarða króna eftir skatta á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 samanborið við 15,4 milljarða króna hagnað á sama tímabili árið 2018.
Arðsemi eigin fjár á tímabilinu var 7,9 prósent á ársgrundvelli samanborið við 8,8 prósent á sama tímabili 2018, að því er segir í tilkynningu frá bankanum.
Frá árinu 2013 hefur bankinn greitt 142 milljarða í arð til eigenda, en íslenska ríkið á bankinn að nær öllu leyti, eða 99 prósent.
Eiginfjárhlutfall bankans, sem er stærstur banka á Íslandi, er nú rúmlega 23 prósent og eigið féð 243,9 milljarðar króna. Til samanburðar var eigið fé Arion banka 195 milljarðar um mitt þetta ár og eigið fé Íslandsbanka 175 milljarðar.
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, segir í tilkynningu að það sé farið að hægjast á hagkerfinu og það komi fram í virðisrýrnun útlána. „Uppgjörið ber þess einnig merki að umsvif í hagkerfinu hafa dregist saman. Rekstrarumhverfi fyrirtækja er erfiðara og sú staða veldur nokkurri virðisrýrnun útlána,“ segir Lilja Björk.
Hreinar vaxtatekjur voru 30,1 milljarður króna samanborið við 29,8 milljarða króna á sama tímabili árið áður.
Hreinar þjónustutekjur námu 6,1 milljarði króna og hækkuðu um 5 prósent frá sama tímabili árið áður. Neikvæðar virðisbreytingar námu 3,4 milljörðum króna á tímabilinu samanborið við jákvæðar virðisbreytingar upp á 1,6 milljarð króna á sama tímabili í fyrra.
Í lok september 2019 var vanskilahlutfallið 0,8 prósent, samanborið við 0,5 prósent á sama tíma árið 2018. Rekstrartekjur bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 námu 39,3 milljörðum króna samanborið við 41,1 milljarð króna á sama tímabili árið áður. Aðrar rekstrartekjur námu 6,5 milljörðum króna samanborið við 3,8 milljarða króna á sama tímabili árið áður, sem er 72 prósent hækkun.
Vaxtamunur eigna og skulda nam 2,4 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 en var 2,7 prósent á sama tímabili árið áður.
Rekstrarkostnaður bankans á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 nam 17,7 milljörðum króna og stóð nánast í stað á milli tímabila. Þar af var launakostnaður 10,7 milljarðar króna samanborið við 10,8 milljarða króna á sama tímabili árið 2018, sem er lækkun um 0,9 prósent. Annar rekstrarkostnaður var 7 milljarðar króna og stendur í stað á milli tímabila.
Kostnaðarhlutfall fyrstu níu mánaða ársins var 41,4% samanborið við 45,0 prósent á sama tímabili árið 2018. Útlán til einstaklinga og fyrirtækja jukust um 6,8 prósent frá áramótum, eða um rúma 72,3 milljarða króna. Innlán hjá Landsbankanum jukust um 1,5 prósent frá áramótum, eða um 10,7 milljarða króna.
Eigið fé Landsbankans var 243,9 milljarðar króna 30. september sl. og eiginfjárhlutfallið var 23,6 prósent.