Félagið Dalsdalur ehf., sem á útgáfufélag DV og tengdra miðla, skuldar alls tæplega 759 milljónir króna. Skráður eigandi félagsins, lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson, hefur ekki viljað upplýsa um við hvern skuldin er en uppistaða hennar, alls 745 milljónir króna, er vaxtalaust langtímalán sem á að greiðast síðar en árið 2022. Þetta kemur fram í ársreikningi Dalsdals ehf. fyrir árið 2018.
Skuldir félagsins jukust um um 270 milljónir króna í fyrra.
Hátt í 300 milljóna tap á rúmu ári
Frjáls fjölmiðlun hóf starfsemi í september 2017. Félagið keypti þá fjölmiðla Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN var síðar sett í þrot.
Á fyrstu fjórum mánuðum starfseminnar tapaði félagið 43,6 milljónum króna. Á síðasta ári jókst tapið umtalsvert og var um 240 milljónir króna. Samtals tapaði fjölmiðlasamstæðan því 283,6 milljónum króna á 16 mánuðum.
Samkvæmt ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlar skuldaði samstæðan 610,2 milljónir króna í lok síðasta árs. Þar af voru langtímaskuldir 506,7 milljónir króna og voru, líkt og áður sagði, að nánast öllu leyti við eigandann, Dalsdal.
Hlutafé í Frjálsri fjölmiðlun, sem gefur út DV, dv.is og tengda miðla, var aukið um 120 milljónir króna á aðalfundi félagsins sem fór fram 6. september síðastliðinn. Alls hefur inngreitt hlutafé í félagið, frá því að það keypti umrædda fjölmiðla síðla árs 2017, numið 340,5 milljónum króna.
Framkvæmdastjóri Frjálsrar fjölmiðlunar er Karl Garðarsson og ábyrgðarmaður fjölmiðla er Lilja Katrín Gunnarsdóttir. Í ritstjórnarstefnu DV er m.a. tiltekið að markmið miðilsins sé að miðla upplýsingum til almennings og að æðstu gildi DV séu sannleikurinn og lýðræðið. Miðillinn miði fréttamat sitt við hagsmuni og áhuga almennings og að efnisvalið lúti þeim lögmálum. Þá segir: „Fjölmiðillinn DV og fréttamenn hans vinna ekki út frá hagsmunum stjórnmálaflokka, fyrirtækja, einstaklinga eða sérhagsmunahópa. DV starfar í þágu almennings og á afkomu sína undir honum.“