Sjálfstæðisflokkurinn mælist með 21,1 prósent fylgi í nýjustu könnun MMR og mælist í fyrsta sinn með yfir 20 prósent fylgi hjá fyrirtækinu frá því um miðjan júní. Hann er áfram sem áður stærsti flokkur landsins samkvæmt mælingum MMR.
Samfylkingin bætir líka við sig fylgi frá því í fyrri hluta október, þegar síðasta könnun MMR var birt, og mælist nú með 15,3 prósent en hafði áður 14,1 prósent. En mest allra bætir við sig Flokkur fólksins, sem fer úr 5,6 prósentum í átta prósent slétt. Flokkurinn hefur ekki mælst með meira fylgi síðan í júní 2018.
Miðflokkurinn, sem virtist vera á mikilli siglingu fyrr í mánuðinum, dalar hins vegar úr 14,8 prósentum í 13,5 prósent.
Fylgi Framsóknarflokksins haggast varla á milli kannana og mælist tíu prósent. Það er nákvæmlega sama fylgi og Viðreisn mælist með en sá flokkur tapar einu prósentustigi frá því í fyrri hluta október. Fylgi Pírata mælist sömuleiðis nánast það sama og fyrr í mánuðinum, eða 8,9 prósent.
Vinstri græn, flokkurinn sem leiðir ríkisstjórn, mælist nú sjötti stærsti flokkur landsins og fylgi flokksins mælist undir tveggja stafa tölu, eða 9,7 prósent. Það dalar lítillega á milli kannana.
Fylgi Sósíalistaflokks Íslands mælist 2,6 prósent, sem myndi ekki duga flokknum til að ná inn manni á þing. Ef kosningar myndu fara eins og nýjasta könnun MMR gefur til kynna myndu allir þeir átta flokkar sem eiga fulltrúa á þingi ná aftur þangað inn.
Stuðningur við ríkisstjórnina stendur nánast í stað og mælist 42,2 prósent.