Einungis helmingur þeirra frumvarpa ríkisstjórnarinnar sem voru á þingmálaskrá í september, sem voru alls 26, höfðu verið lögð fram í lok síðustu viku, eða 13 talsins. Þá hafði ein af þremur þingsályktunartillögum sem voru á þingmálaskrá í september verið lagðar fyrir Alþingi á sama tíma.
Í október átti, samkvæmt þingmálaskrá, að leggja fram 36 frumvörp. Þann 18. október höfðu tvö þeirra verið lög fyrir Alþingi. Þá höfðu fimm af 14 þingsályktunartillögum sem eru á þingmálaskrá í október verið lagðar fyrir Alþingi. Síðan 18. október hafa þrjú frumvörp ríkisstjórnar verið lögð fram
Þetta kemur fram í svari frá forsætisráðuneytinu við fyrirspurn Kjarnans um málið.
Umdeild frumvörp bíða
Á meðal frumvarpa sem átti að leggja fram í september, en hefur enn ekki verið mælt fyrir, er frumvarp til laga um vernd uppljóstrara og frumvarp til laga um breytingar á lögum um fjölmiðla.
Fyrra frumvarpið, sem lagt er fram af forsætisráðherra, kveður á um að miðlun upplýsinga eða gagna, að fullnægðum skilyrðum frumvarpsins, teljist ekki brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu viðkomandi og leggi hvorki refsi- né skaðabótabyrgð á hann og geti ekki heldur leitt til stjórnsýsluviðurlaga eða íþyngjandi úrræða að starfsmannarétti. Þá er lagt sérstakt bann við því að láta hvern þann sæta óréttlátri meðferð sem miðlað hefur upplýsingum eða gögnum samkvæmt framansögðu. Lögð er sönnunarbyrði á atvinnurekanda á þann hátt að ef líkur eru leiddar að óréttlátri meðferð skal hann sýna fram á að sú sé ekki raunin og greiða skaðabætur ef það tekst ekki. Þegar frumvarpið var kynnt í samráðsgátt stjórnvalda barst ein umsögn um það, frá Samtökum atvinnulífsins, sem lögðu til að það yrði athugað hvort að „ ekki væri hægt að fara vægari leið en að setja sérlög um málefnið.“ Þau lögðu því til að frumvarpið yrði tekið til nánari athugunar í ráðuneytinu áður en lengra yrði haldið.
Síðara frumvarpið snýst að veita tvíþættan stuðning ríkisins við einkarekna fjölmiðla. Annars vegar stuðning í formi endurgreiðslu á allt að 25 prósent af tilteknum hluta kostnaðar af ritstjórnarstörfum, en að hámarki er hann 50 milljónir króna á fjölmiðil. Hins vegar talað um stuðning sem nemi allt að 5,15 prósent af launum starfsfólks á ritstjórn sem fellur undir lægra skattþrep tekjuskattsstofna. Árlegur kostnaður er metinn 520 milljónir króna.