Icelandair Group sendi í gærkvöldi jákvæða afkomuviðvörun til Kauphallar Íslands þar sem fram kemur að, miðað við fyrirliggjandi forsendur, verði afkoma félagsins neikvæð um 35-55 milljónir Bandaríkjadala á árinu 2019, eða um 4,4 til 6,8 milljarða króna miðað við gengi dagsins í dag, fyrir greiðslu skatta og vaxtagjalda. Áður hafi verið búist við tapi upp á 70 til 90 milljónir Bandaríkjadala, eða 8,7 til 11,2 milljarða króna.
Ástæðan fyrir breytingunni er sú að Boeing 737 MAX vélar félagsins munu ekki fara í loftið fyrr en í fyrsta lagi í mars á næsta ári og því flyst væntur kostnaður vegna innleiðingar þeirra inn í flota Icelandair á ný yfir á næsta ár, í stað þess að falla til í ár. Þetta var tilkynnt fyrir helgi en áður hafði félagið gegnið út frá því að fá vélarnar aftur til vinnu í janúar 2020. Viðræður milli Icelandair og Boeing, um bótagreiðslur vegna þess fjártjóns sem Icelandair hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar, eru í gangi en hafa ekki skilað endanlegri niðurstöðu.
Þriðji ársfjórðungur er sá mikilvægasti í starfsemi Icelandair. Hann nær yfir júlí, ágúst og september sem eru með stærstu mánuðum ársins í ferðaþjónustu. Í fyrra nam hagnaður
Icelandair eftir fjármagnsliði, afskriftir og skatta (EBITDA) um 115 milljónir Bandaríkjadala, Það var umtalsvert lægri rekstrarhagnaður en Icelandair var með á sama ársfjórðungi árið 2017, þegar hann var 156 milljónir dala. Um var að ræða samdrátt upp á 26 prósent.
Í tilkynningu Icelandair segir að vel hafi gengið að draga úr áhrifum af kyrrsetningu MAX vélanna að undanförnu, auk þess sem umbætur í leiðakerfinu og bætt tekjustýring séu farin að skila félaginu árangri.
Túlka má þessa stöðu sem varnarsigur hjá Icelandair, enda aðstæður félagsins krefjandi og fordæmalausar, vegna kyrrsetningar á hluta flota félagsins, eins og Bogi Nils Bogason, forstjóri, hefur lýst stöðu mála hjá félaginu. Á síðustu tveimur ársfjórðungum hefur félagið tapað um 11 milljörðum króna, og er því uppfærð afkomuspá verulega jákvæð tíðindi fyrir félagið, þrátt fyrir áframhaldandi erfiðleika.
Markaðsvirði félagsins var um 33 milljarðar við lokun markaða á föstudaginn, en eigið fé félagsins nam um mitt ár nam 55 milljörðum króna.