Fyrirtækið NRS Media þarf að greiða þrotabúi Pressunnar ehf. 16,7 milljónir króna með vöxtum, samkvæmt dómum sem féllu í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Endurgreiðslurnar tengjast uppgjöri á skuldum Pressunnar ehf. við NRS Media, vegna auglýsingasamnings sem Pressan hafði gert við NRS, með það að markmiði að afla meiri auglýsingatekna.
Pressan stóð ekki við sitt, og gatt ekki greitt skuldir sínar, og því hafði NRS Media reynt eftir fremsta megni að fá skuldirnar greiddar, og hafði meðal annars lagt fram þrettán sinnum gjaldþrotabeiðni, vegna þessa, að því er segir í málsatvikalýsingu annars dómsins.
Svo fór að greiðslur bárust til NRS Media, en þá var félagið komið í mikla skuld við mun fleiri kröfuhafa, og var það tekið til gjaldþrotaskipta 13. desember 2017, rúmlega mánuði eftir að uppgjör við NRS Media hafði farið fram.
Í heild námu kröfur í bú Pressunnar ehf. 315 milljónum króna. Kristján Thorlacius hrl., skiptastjóri þrotabússins, hefur höfðar rifturnarmál þar sem undir eru greiðslur upp á fjórða hundruð milljóna króna.
Skömmu fyrir gjaldþrot félagsins, keypti félagið Frjáls fjölmiðlun, sem er í eigu Sigurðar G. Guðjónssonar hrl., útgáfuréttindi úr þrotabúi Pressunnar fyrir 276 milljónir króna, þar á meðal DV og DV.is, sem Frjáls fjölmiðlun rekur í dag.
Félagið Dalsdalur ehf., sem á Frjálsa fjölmiðlun og tengda miðla, skuldar alls tæplega 759 milljónir króna. Skráður eigandi félagsins, Sigurður G. Guðjónsson, hefur ekki viljað upplýsa um við hvern skuldin er en uppistaða hennar, alls 745 milljónir króna, er vaxtalaust langtímalán sem á að greiðast síðar en árið 2022. Þetta kemur fram í ársreikningi Dalsdals ehf. fyrir árið 2018.
Skuldir félagsins jukust um um 270 milljónir króna í fyrra.
Einu eignir Dalsdals voru í lok síðasta árs annars vegar allt hlutafé í Frjálsri fjölmiðlun ehf., útgáfufélagi DV og tengdra miðla, og kröfur á það félag upp á 505 milljónir króna. Í ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlunar fyrir síðasta ár kom fram að enginn sérstakur gjalddagi væri á skuld félagsins við Dalsdal og að hún beri ekki vexti.
Frjáls fjölmiðlun hóf starfsemi í september 2017, eins og áður segir, í kringum kaup félagsins á útgáfuréttindum Pressunnar. Félagið keypti þá fjölmiðla Pressusamstæðunnar: DV, DV.is, Eyjuna, Pressuna, Bleikt, Birtu, Doktor.is, 433.is og sjónvarpsstöðina ÍNN. ÍNN var síðar sett í þrot.
Á fyrstu fjórum mánuðum starfseminnar tapaði félagið 43,6 milljónum króna. Á síðasta ári jókst tapið umtalsvert og var um 240 milljónir króna. Samtals tapaði fjölmiðlasamstæðan því 283,6 milljónum króna á 16 mánuðum.
Samkvæmt ársreikningi Frjálsrar fjölmiðlar skuldaði samstæðan 610,2 milljónir króna í lok síðasta árs. Þar af voru langtímaskuldir 506,7 milljónir króna og voru, líkt og áður sagði, að nánast öllu leyti við eigandann, Dalsdal.
Hlutafé í Frjálsri fjölmiðlun, sem gefur út DV, dv.is og tengda miðla, var aukið um 120 milljónir króna á aðalfundi félagsins sem fór fram 6. september síðastliðinn. Alls hefur inngreitt hlutafé í félagið, frá því að það keypti umrædda fjölmiðla síðla árs 2017, numið 340,5 milljónum króna.
Skattgreiðendur eiga hagsmuna að gæta
Almennar kröfur í bú Pressunnar voru upp á 183,5 milljónir króna og var stærsta krafan frá Tollstjóra vegna opinberra gjalda.
Ríkislögmaður, fyrir hönd Tollstjóra, hefur fallist á að rifta 143 milljóna króna greiðslu í ríkissjóð, úr rekstri fjölmiðlafyrirtækisins Pressunnar ehf., sem nú er í slitameðferð eftir gjaldþrot.
Höfðuð hafa verið fjögur riftunarmál upp á samtals 393 milljónir króna. Þar af er bróðurparturinn, upp á 278 milljónir, vegna greiðslna til ríkissjóðs, sem á því mikilla hagsmuna að gæta fyrir hönd skattgreiðenda vegna falls fjölmiðlafyrirtækisins.