Haraldur Johannessen, ríkislögreglustjóri, lofaði því að bæta ráð sitt og haga sér betur í framtíðinni, og var því ekki áminntur fyrir bréfasendingar til Björns Jóns Bragasonar rithöfundar og Sigurðar Kolbeinssonar þáttastjórnanda.
Frá þessu var greint á RÚV í dag.
Dómsmálaráðuneytið hafði áður sagt að framganga Haraldar, sem skrifaði Birni Jóni og Sigurði bréf til að andmæla umfjöllun þeirra og notaði bréfsefni embættisins, hefði verið ámælisverð.
Tryggvi Gunnarsson, Umboðsmaður Alþingis, sendi fyrirspurn, og óskaði eftir skýringum á því hvers vegna Haraldur hefði ekki verið áminntur fyrir framgöngu sína.
Í svari sínu segir dómsmálaráðuneyti Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, að Haraldur hefði fengið skýr skilaboð um að bæta ráð sitt og leiðrétta misgjörðir.
„Var það mat m.a. byggt á því að hann gekkst við misgjörðum sínum og áréttaði það til framtíðar að hann myndi gæta að orðanotkun í málum sem þessum. Í ljósi þess var ákveðið að gefa honum þó skýr skilaboð um afstöðu ráðuneytisins til slíkrar framgöngu og leggja sérstaklega fyrir hann að leiðrétta hana. Það voru því meðalhófssjónarmið sem réðu för við þetta mat,“ segir í bréfi ráðuneytisins til umboðsmanns.