„Það er ekki síst vegna baráttu grasrótarhreyfinga, ungmennanna sem hafa staðið vaktina í loftslagsverkföllum, umhverfisverndarsamtaka og vísindamanna, að loftslagsmálin eru orðin hluti af meginstraumi stjórnmálanna. Sá árangur sýnir okkur að lýðræðisleg umræða skilar árangri.“ Þetta sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra við setningu Norðurlandaráðsþings í þinghúsi Svíþjóðar í Stokkhólmi í dag.
Á sama tíma hefðu þeir sem afneita loftslagsbreytingum líka fengið meira rými í umræðunni. Slíkt væri eðli lýðræðisins – andstæð sjónarmið tækjust á. Það lægi enn meiri ábyrgð á herðar þeirra stjórnmálamanna sem vildu fylgja vísindum og byggja ákvarðanir á rannsóknum og gögnum. Þó að þar ljósti oft saman ólíkum skoðunum þá fengjust bestu niðurstöðurnar með lýðræðislegum hætti „vegna þess að það er besta stjórnarform sem við eigum.“
Neysluvenjur verða að breytast
Norðurlandaráðsþingið er haldið í 71. skiptið og mun standa til 31. október næstkomandi. Þá safnast stjórnmálafólk frá öllum Norðurlöndunum saman. Loftslagsmál, sjálfbærni og þátttaka ungs fólks er meðal annars á dagskrá. 87 þingmenn Norðurlandaráðs koma saman, sem og fjölmargir ráðherrar, þar á meðal forsætisráðherrarnir.
Norrænu forsætisráðherrarnir lögðu allir mikla áherslu á loftslagsmál í máli sínu. Meðal annars var bent á að mikilvægt væri að berjast fyrir hreinum sjó, að stjórnmálamenn yrðu að taka hugrakkar ákvarðanir og að loftslagsmál væru flókið verkefni. Neysluvenjur yrðu að breytast en það yrði þó ekki einfalt.
„Þurfum að þora meira lýðræði“
Katrín byrjaði á því að þakka þinginu fyrir að setja á dagskrá spurninguna um hlutverk grasrótarhreyfinga, stjórnmálaflokka og frjálsra félagasamtaka í baráttunni gegn loftslagsbreytingum – hvernig þau tækjust á við mikilvægasta verkefni samtímans, loftslagsvána með leikreglum lýðræðisins.
Hún vísaði í orð Willy Brandt sem sagði á sínum tíma að við þyrftum að „þora meira lýðræði.“ Þar hefði hann ekki síst átt við samtal stjórnvalda við frjáls félagasamtök og hagsmunahópa. Lýðræði fælist líka í því að hlusta og setja sig inn í sjónarmið þeirra sem séu manni ósammála.
Aðgerðir gegn loftslagsvánni verða að vera réttlátar
„Vestræn samfélög standa frammi fyrir grundvallarumbreytingu. Til að ná henni fram þarf að breyta efnahagslegum og samfélagslegum stjórntækjum. Það þarf að skapa hvata og breyta skattlagningu þannig að hún þjóni markmiðum í loftslagsmálum. Það þarf að tryggja að lífeyrissjóðir og sjóðir hins opinbera fjárfesti í grænum skuldabréfum. Það þarf að vinna gegn sóun með þeim stjórntækjum sem við eigum og tryggja að hagkerfið ýti undir eðlilega hringrás.
Á sama tíma þurfa aðgerðir okkar gegn loftslagsvánni að vera réttlátar. Við þurfum að huga að velsæld fólksins á sama tíma og við drögum úr losun. Góðu fréttirnar eru að þetta tvennt fer saman,“ sagði Katrín.
Hún sagði enn fremur að ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að lengja fæðingarorlof og auka þannig lífsgæði barnafólks myndi vafalítið draga úr skutli bæjarenda á milli sem drægi úr losun og yki dýrmætan samverutíma. Það sama mætti segja um ákvörðun stjórnvalda um að lækka álögur á rafhjól. Ákvörðun sem gæti dregið úr losun og bætt loftgæði og einnig bætt heilsu þeirra sem velja þennan ferðamáta.
Þurfa að sýna þetta í verki
„Fjárfesting í menntun, rannsóknum og nýsköpun hjálpar okkur að finna nýjar leiðir til að takast á við loftslagsvána, draga úr losun og auka viðnámsþrótt samfélaganna til að takast á við óumflýjanlegar breytingar. Um leið eflum við samkeppnishæfni okkar.
Stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn þurfa að sýna í verki að við erum reiðubúin að takast á við áskorunina um sjálfbært samfélag. Við þurfum að vera reiðubúin að taka djarfar ákvarðanir sem þjóna almannahagsmunum og þjóna framtíðinni. En þessar ákvarðanir þurfa að vera teknar með lýðræðislegum hætti svo við stöndum öll saman að þessari umbreytingu,“ sagði ráðherrann.
Um leið þyrftu stjórnmálin að vera meðvituð um að ábyrgðin á loftslagsaðgerðum verði ekki eingöngu lögð á herðar einstaklinganna.
Tuttugu jarðefnaeldsneytisframleiðendur bæru samanlagða ábyrgð á rúmlega þriðjungi alls útblásturs í heiminum. Tólf þeirra væru í ríkiseigu. Stórfyrirtækin yrðu að axla ábyrgð á sínum hlut í losun gróðurhúsalofttegunda.
Hún sagði jafnframt að stjórnmálamenn og stjórnmálaflokkar þyrftu að tryggja að stórfyrirtækin öxluðu þá ábyrgð sem þau bera – rétt eins og stjórnvöld þyrftu að axla sína ábyrgð. Þá væri hægt að tala um ábyrgð almennings.
Framtíðin kallar á okkur að gera betur
„Ísland hefur í ár gegnt formennsku í Norrænu ráðherranefndinni. Það hefur verið heiður og ánægja að stýra skútunni um stund.
Ísland er minnst af þeim stóru en við erum líka stærst af þeim litlu. Þannig höfum við á formennskuárinu lagt okkur fram um að efla enn frekar samvinnuna við Álandseyjar, Færeyjar og Grænland, og ég held að það hafi tekist ágætlega.
Í sumar ákváðum við að setja Norrænu ráðherranefndinni nýja framtíðarsýn; sum Norðurlöndin sem sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi árið 2030.
Norðurlöndin hafa sýnt að þau geta með samvinnu náð miklu meiri árangri en sitt í hvoru lagi. Nú kalla loftslagsmálin á okkur. Framtíðin kallar á okkur að gera betur. Að þora. Ég hlakka til umræðunnar hér á eftir,“ sagði hún að lokum.