Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, segir að bankaskatturinn svokallaði þurfi að fara. Það sé grundvallaratriði að íslenskir bankar búi við eðlileg og samkeppnishæf skilyrði til að sinna viðskiptavinum sínum.
Þetta kemur fram í stöðuuppfærslu hans á Twitter þar sem hann hlekkjar í frétt Fréttablaðsins frá því í morgun þar sem kom fram að ef sérstakur bankaskattur yrði afnumin með öllu myndi söluandvirðið sem ríkissjóður getur vænst að fá fyrir hlutafé í Íslandsbanka og Landsbanka, yrðu þeir seldir að fullu, hækka um 70 milljarða króna.
Þetta er mikilvægt. Grundvallaratriði er einnig að bankarnir búi við eðlileg, samkeppnishæf skilyrði til að sinna viðskiptavinum sínum. Þessi sérstaki skattur þarf því að fara. https://t.co/U8yrQZ7ayQ
— Bjarni Benediktsson (@Bjarni_Ben) October 30, 2019
Þetta er mat Bankasýslu ríkisins sem kynnti þá greiningu fyrir efnahags- og viðskiptanefnd í síðustu viku. Ef skatturinn verður lækkaður niður í 0,145 prósent, líkt og stendur til að gera í nokkrum skrefum á næstu árum, mun söluandvirðið aukast um 44 milljarða króna.
Skatturinn á að lækka í skrefum til 2024
Í byrjun september síðastliðinn kynnti Bjarni nýtt frumvarp um lækkun á bankaskatti. Samkvæmt því verður hinn sérstaki bankaskattur lækkaður úr 0,376 prósent af heildarskuldum þeirra fjármálafyrirtækja sem greiða hann í 0,145 prósent.
Frumvarpið hafði áður verið lagt fram í apríl síðastliðnum og þegar gengið til efnahags- og viðskiptanefndar. Þá átti fyrsta skref lækkunarinnar að taka gildi á næsta ári, 2020.
Þegar fjármálaáætlun var breytt í júní var hins vegar ákveðið að fresta lækkun bankaskattsins um eitt ár. Hann mun því ekki byrja að lækka á næsta ári, heldur árið 2021, og vera komin til framkvæmda að öllu leyti árið 2024. Þær breytingar voru gerðar vegna breyttra aðstæðna í íslensku efnahagslífi, aðallega vegna gjaldþrots WOW air og loðnubrests.