Hagnaður samstæðu Arion banka á þriðja ársfjórðungi 2019 nam 800 milljónum króna samanborið við 1,1 milljarð króna á sama tímabili 2018. Arðsemi eigin fjár var 1,6 prósent á þriðja ársfjórðungi 2019 samanborið við 2,3 prósent á sama tímabili árið 2018.
Á þennan mælikvarða hefur arðsemi Arion banka verið áberandi mikið lægri en hjá bæði Íslandsbanka og Landsbankanum, en íslenska ríkið er eigandi hinna tveggja síðarnefndu. Markmið Arion banka er að arðsemi eigin fjár sé í kringum 10 prósent, til lengdar litið, samkvæmt stefnu sem stjórn bankans hefur samþykkt.
Markaðsvirði Arion banka er nú 133 milljörðum króna, en eigið fé er 196 milljarðar.
Hagnaður af áframhaldandi starfsemi nam 3,8 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi og 8,8 milljörðum króna á fyrstu níu mánuðum 2019, samanborið við 1.351 milljón króna á þriðja ársfjórðungi 2018 og 6.805 milljónir króna fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2018. Arðsemi eigin fjár af áframhaldandi starfsemi var um 8,5 prósent á þriðja ársfjórðungi og 6,5 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. Dótturfélögin Valitor Holding, Stakksberg og TravelCo eru skilgreind sem eignir til sölu.
Heildareignir Arion banka námu 1.213 milljörðum króna í lok september 2019 samanborið við 1.164 milljarða króna í árslok 2018. Lán til viðskiptavina lækkuðu um 21,3 milljarða króna eða 3 prósent og er það í samræmi við auknar áherslur bankans á arðsemi fremur en lánavöxt. Eigið fé nam 196 milljörðum króna, eins og áður segir, samanborið við 201 milljarð króna í árslok 2018.
Eiginfjárhlutfall bankans, að teknu tilliti til afkomu á þriðja ársfjórðungi, var 23,6% í lok september 2019 en var 22,0% í árslok 2018. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1, að teknu tilliti til afkomu á þriðja ársfjórðungi, nam 21,6% í lok september 2019, samanborið við 21,2% í árslok 2018.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir í yfirlýsingu að bankinn muni leggja upp með að eflast þjónustu og hagkvæmni í rekstri. „Bankinn kynnti í lok þriðja ársfjórðungs umfangsmiklar skipulagsbreytingar og nýjar áherslur í starfseminni. Markmið breytinganna er að styrkja samkeppnishæfni bankans og auka arðsemi eiginfjár. Við þessar breytingar fækkaði starfsfólki bankans um 12% og sviðum bankans um tvö. Stefna bankans um að veita viðskiptavinum sínum fjölbreytta fjármálaþjónustu og vera í fararbroddi þegar kemur að stafrænni fjármálaþjónustu er óbreytt. Hins vegar má segja að um ákveðna áherslubreytingu sé að ræða þegar kemur að fjármögnun fyrirtækja. Vegna hárra skatta og mikilla eiginfjárkvaða á fjármálafyrirtæki getur verið hagstæðara fyrir sum fyrirtæki að fjármagna sig með öðrum hætti en hefðbundnum bankalánum. Arion banki ætlar að efla þjónustu við þessi fyrirtæki, vera ráðgefandi um hagstæðustu fjármögnun hverju sinni og vera öflugur samstarfsaðili með heildarhagsmuni þeirra í fyrirrúmi.
Arion banki leggur ríka áherslu á jafnréttismál en bankinn hefur verið með jafnlaunavottun frá árinu 2015. Fyrir um ári fékk bankinn svo fyrstur banka heimild til að nota jafnlaunamerki velferðarráðuneytisins. Eftir að bankinn var skráður í kauphöllina hér á landi og í Stokkhólmi þá hafa bæði sænskir og alþjóðlegir aðilar í auknum mæli tekið bankann út hvað varðar samfélagsábyrgð og stöðu jafnréttismála. Nýverið tók Allbrigt stofnunin í Svíþjóð út stöðu jafnréttismála hjá öllum skráðum fyrirtækjum í kauphöllinni í Stokkhólmi, alls 333 fyrirtæki, og það er ánægjulegt að Arion banki er þar í 25. sæti. Það er góður árangur en við ætlum okkur að gera enn betur í þessum efnum.
Við kynntum nýverið nýjustu viðbótina við Arion appið og er þar um að ræða þjónustu í anda opinna bankaviðskipta. Þessa lausn unnum við í góðu samstarfi við fjártæknifyrirtækið Meniga og gerir hún öllum þeim sem eru með Arion
appið kleift að sjá á einum stað yfirlit yfir reikninga sína og kort hjá Arion banka, Landsbankanum og Íslandsbanka. Þessar upplýsingar eru svo teknar saman og flokkaðar eftir útgjaldaliðum heimilisins, en þannig fæst einstök yfirsýn yfir tekjur og útgjöld
heimilisins og þróun þeirra yfir tíma. Hafa móttökur viðskiptavina verið mjög góðar og geta allir sem ekki eru nú þegar með Arion appið sótt það og byrjað að nýta þessa nýju þjónustu,“ segir Benedikt Gíslason í tilkynningu.