Hagnaður Íslandsbanka á fyrstu níu mánuðum ársins var 6,8 milljarðar króna, en á þriðja ársfjórðungi hagnaðist bankinn um 2,1 milljarð.
Arðsemi eigin fjár bankans, sem er algengur mælikvarði á rekstragrunn banka, minnkaði milli ára úr 4,9 prósent í 4,7 prósent.
Þetta kemur fram í tilkynningu bankans.
„Ánægjulegt er þó að kostnaðarhlutfall bankans hefur farið lækkandi á tímabilinu samanborið við sama tíma í fyrra. Sé eingöngu horft til móðurfélags bankans er hlutfallið nú rétt við 55% langtímamarkmið bankans en áfram verður unnið að því að auka hagkvæmni í rekstri. Lausafjárstaða bankans er sem fyrr sterk og vel yfir kröfum eftirlitsaðila auk þess sem eiginfjárhlutfall er við langtímamarkmið bankans,“ segir Birna Einarsdóttir, bankastjóri, í tilkynningu.
Á fyrstu níu mánuðum ársins var ellefu prósent vöxtur í þóknanatekjum og 6,5 prósent vöxtur í vaxtatekjum frá sama tímabili í fyrra auk þess sem lánabók bankans óx um 7,4 prósent.
„Neikvæðar virðisbreytingar, sem meðal annars má rekja til þess að nokkuð hefur hægt á efnahagslífinu, hafa þó vissulega dregið úr afkomunni og er arðsemi eigin fjár tímabilsins undir markmiðum bankans,“ segir Birna enn fremur.
Hagnaður af reglulegri starfsemi var 8,7 milljarðar króna, samanborið við 9,9 milljarða króna á sama tímabili í fyrra. Hreinar vaxtatekjur voru 25,2 milljarðar króna og jókst um 6,5 prósent milli ára. Hreinar þóknanatekjur voru 9,7 milljarðar króna, og jókst um 11 prósent miðað við fyrstu 9 mánuði ársins 2018.
Virðisbreyting útlána var neikvæð um 2.078 milljónir króna á tímabilinu, samanborið við jákvæða virðisbreytingu um 1.881 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.
Stjórnunarkostnaður jókst um 3 prósent milli ára og nam 20,8 milljörðum króna. Kostnaðarhlutfall samstæðu á tímabilinu var 61,3 prósent samanborið við 65,6 prósent á sama tímabili 2018, en kostnaðarhlutfall móðurfélags var 55,3 prósent sem er við 55 prósent langtímamarkmið bankans.
Útlán til viðskiptavina jukust á tímabilinu og voru 909,2 milljarðar króna í lok september. Ný útlán á fyrstu níu mánuðum ársins 2019 voru 162,7 milljarðar króna. Innlán frá viðskiptavinum voru 610,3 milljarðar króna í lok september sem er 5,4 prósent aukning frá áramótum.
Íslenska ríkið er eigandi Íslandsbanka, 100 prósent, en það á Landsbankann einnig (99 prósent).