Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, fór fram að laun sín fyrir formennsku í Landssambandi íslenzkra verzlunarmanna (LÍV) yrðu lækkuð um 25 prósent þar sem honum þóttu þau of há. Heildarlaun Ragnars Þórs eru nú í heild sinni 1.482.213 krónur á mánuði. Þetta kemur fram í Facebook- færslu Ragnars Þórs.
Þótti launin of há
Ragnar Þór var sjálfkjörinn formaður LÍV á þingi sambandsins sem haldið var á Akureyri þann 19. október síðastliðinn. Hann tók tímabundið við sem formaður LÍV í miðjum kjaraviðræðum síðasta vor eftir að Guðbrandur Einarsson, þáverandi formaður, ákvað að stíga til hliðar.
Fyrir formennsku í LÍV hafa áður verið greiddar 398.136 krónur á mánuði en í færslu sinni segir Ragnar að honum hafi fundist þessi laun of há. Sérstaklega í ljósi þess að formenn verslunarmannafélaga hafa gengt stöðunni undanfarin ár og um einhverja skörun starfa er að ræða.
Hann lagði því til við stjórn LÍV að launin yrðu lækkuð og var samþykkt að leggja fyrir nýafstaðið þing Landssambandsins að lækka launin um 25 prósent eða í 298.602 krónur.
1,5 milljónir á mánuði
Ragnar segir að hann hafi ávallt talið að upplýsingar um laun og aðrar greiðslur til forystufólks í verkalýðshreyfingunni þurfi að liggja fyrir opinberlega til að tryggja gegnsæi og koma í veg fyrir mögulega hagsmunaárekstra. Því ákvað hann að greina frá núverandi heildarlaunum sínum á Facebook.
Laun hans fyrir formennsku í VR eru 1.183.611 krónur á mánuði og laun hans fyrir formennsku í LÍV eru 298.602 krónur á mánuði. Samtals eru heildarlaunin hans 1.482.213 krónur á mánuði. Þá tók hann sérstaklega fram hann fái ekki aðrar greiðslur fyrir trúnaðarstörf á vegum verkalýðshreyfingarinnar né annars staðar frá.
Ég hef alltaf talið að upplýsingar um laun og aðrar greiðslur til forystufólks í verkalýðshreyfingunni þurfi að liggja...
Posted by Ragnar Þór Ingólfsson on Wednesday, October 30, 2019