Samtök atvinnulífsins (SA) segja að fullyrðingar Hjálmars Jónssonar, formanns Blaðamannafélags Íslands, um að blaðamenn séu með lægstu laun háskólamenntaðra í landinu, standist ekki. Ummælin lét Hjálmar falla í samtali við Fréttablaðið í gær þar sem hann sagði einnig að hann: „fullyrði það að það sé engin háskólastétt í landinu jafn illa launuð“.
Í frétt sem SA birti á heimasíðu sinni í dag er sagt að fullyrðingar Hjálmars standist ekki. „Samkvæmt launaupplýsingum Hagstofu Íslands var miðgildi reglulegra launa blaðamanna 603 þús. kr. á mánuði árið 2018, eins og sést á meðfylgjandi súluriti. Miðgildi reglulegra launa þeirra 29 starfsgreina þar sem háskólamenntunar er krafist var 599 þús. kr. þannig að blaðamenn voru í miðju launadreifingarinnar.
Sama gildir sé litið til grunnlauna, sem er þrengra launahugtak en regluleg laun. Miðgildi grunnlauna blaðamanna var 580 þús. kr. en miðgildi grunnlauna allra sérfræðinga var 588 þús. kr., þannig að miðgildi grunnlauna blaðamanna var einnig í miðju dreifingarinnar. Loks þegar litið er til heildarlauna, þ.e. þegar yfirvinnugreiðslum er bætt við regluleg laun, kemur fram að 10 starfsgreinar voru með lægri heildarlaun og 18 með hærri.“
Verði verkfall samþykkt munu fyrstu verkfallsaðgerðir verða föstudaginn 8. nóvember, þegar vinnustöðvun verður í fjóra tíma á netmiðlum ofangreindra miðla.
Viku síðar mun vinnustöðvunin á netmiðlunum vara í átta klukkustundin og þann 22. nóvember í tólf klukkustundir.
Ef ekki verður samið fyrir 28. nóvember á vinnustöðvunin að taka til blaðamanna sem sinna störfum við prentútgáfu Morgunblaðsins og Fréttablaðsins, auk ljósmyndara og tökumanna. Það þýðir að tvö stærstu dagblöð landsins næðu ekki að koma út á svokölluðu „Svörtum föstudegi“, sem er einn stærsti auglýsingasöludagur ársins.
Kjarninn og Birtingur hafa þegar undirritað nýja kjarasamninga við Blaðamannafélag Íslands.