Icelandair hagnaðist um 7,5 milljarða á þriðja ársfjórðungi, sem er rekstrarbati milli ára, þrátt fyrir kyrrsetningu 737 Max vélanna. Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair, segir að sveigjanleiki í leiðakerfi Icelandair hafi reynst félaginu vel, þegar kemur að endurskipulagningu vegna alþjóðlegrar kyrrsetningar Max vélanna.
„Góður árangur hefur náðst í rekstri Icelandair Group, þrátt fyrir að uppgjör fjórðungsins hafi litast verulega af áhrifum kyrrsetningar MAX vélanna. Sveigjanleiki í leiðakerfinu hefur gert okkur kleift að færa tíðni á milli áfangastaða og einbeita okkur að því að nýta flugflotann á arðbærum leiðum. Við höfum lagt áherslu á ferðamannamarkaðinn til Íslands að undanförnu til að mæta mikilli eftirspurn og munum halda því áfram. Íslensk ferðaþjónusta hefur notið góðs af þessari áherslubreytingu en við fluttum 30% fleiri farþega til landsins yfir háannatímann í ár en í fyrra.
Vel hefur gengið að milda áhrif kyrrsetningar MAX vélanna og höfum við unnið markvisst að því að ná niður kostnaði og auka tekjur félagsins. Það höfum við til dæmis gert með umbótum í leiðakerfinu, bættri tekjustýringu og betri nýtingu starfsmanna. Einnig hefur mikill árangur náðst við að bæta stundvísi félagsins á milli ára sem hefur á móti dregið verulega úr þeim kostnaði sem hlýst af röskunum í leiðakerfinu, þrátt fyrir mikið álag á leiðakerfið og starfsfólk vegna kyrrsetningar MAX vélanna.
Horfur fyrir árið 2019 hafa batnað og gerum við ráð fyrir talsverðum afkomubata á fjórða ársfjórðungi. Grunnrekstur félagsins er að styrkjast, eiginfjárstaða nam rúmlega 62 milljörðum króna og lausafjárstaða tæplega 30 milljörðum króna í lok fjórðungsins. Við erum því vel í stakk búin til að ná markmiðum okkar um að bæta arðsemi félagsins á komandi misserum,“ segir Bogi Nils í tilkynningu til kauphallar.
Samkomulag við Boeing
EBIT hagnaður nam um 10 milljörðum króna (81,1 milljón dala) á þriðja ársfjórðungi, sem er hækkun um 0,3 milljarða króna (2,8 milljónir USD) á milli ára, þrátt fyrir kyrrsetningu MAX véla.
Tekjur félagsins námu um 65,6 milljörðum króna (533,9 milljónum dala) í fjórðungnum og lækkuðu um 2% á milli ára.
Sveigjanleiki í leiðakerfi Icelandair gerði félaginu kleift að auka farþegafjölda til Íslands um 27 prósent í fjórðungnum.
Eigið fé félagsins í lok september nam um 62,2 milljörðum króna (500,9 milljónum dala).Eiginfjárhlutfall félagsins þann 30. september var 30% og jókst úr 28% frá byrjun árs 2019 ef sömu reikningsskilaaðferðir eru notaðar. Án áhrifa IFRS 16, var eiginfjárhlutfallið 37%.
Lausafjárstaða félagsins nam um 29,6 milljörðum króna í lok fjórðungsins (238,5 milljónum dala).
Icelandair gekk frá öðru samkomulagi við Boeing í dag um bætur fyrir hluta þess tjóns sem félagið hefur orðið fyrir vegna kyrrsetningar MAX véla, til viðbótar við það samkomulag sem félagið gerði við framleiðandann í þriðja ársfjórðungi.
Viðræður við Boeing um frekari bætur halda áfram eftir sem áður.Gert er ráð fyrir bættri afkomu á fjórða ársfjórðungi á milli ára.
Þegar metin neikvæð áhrif vegna kyrrsetningar MAX vélanna eru ennþá veruleg en áætlað EBIT tap félagsins á árinu 2019, með tilliti til áhrifa kyrrsetningarinnar, er á bilinu 4,3-5,5 milljarðar króna (35-45 milljónir dala), segir í tilkynningu frá félaginu.
Markaðsvirði Icelandair er í tæplega 33 milljarðar, en eigið fé 62,2 milljarðar eins og áður segir.