Stóru bankarnir þrír, Arion banki, íslandsbanki og Landsbankinn, högnuðust um 25 milljarða á fyrstu níu mánuðum ársins. Þar af nam hagnaður Landsbankans 14,4 milljörðum. Hagnaður Íslandsbanka var 6,8 milljarðar og hagnaður Arion banka 3,8 milljarðar.
Þó tölurnar séu háar, í samanburði við marga aðra geira atvinnulífsins, þá sést glögglega á uppgjörunum bankanna að mikið hefur breyst á einu ári í íslenska hagkerfinu.
Arðsemi eigin fjár bankanna hefur farið minnkandi og hagræðing hefur verið umtalsverð á skömmum tíma. Þannig hafa stóru bankarnir þrír, sem eru skilgreindir sem kerfislægt mikilvægir, fækkað um 200 starfsmenn frá því í fyrra, en engu að síður er arðsemi eigin fjár fremur lág, eða á bilinu 1,6 til 7,9 prósent.
Þó það muni mest um 12 prósent fækkun hjá Arion banka, þá hafa Íslandsbanki og Landsbankinn einnig fækkað starfsmönnum, hvor um sig um rétt um 50 starfsmenn á undanförnu ári.
Arðsemi eigin fjár bankanna hefur farið minnkandi og er búist við að rekstrarumhverfið verði meira krefjandi á næstunni, þar sem hert hefur að hjá mörgum fyrirtækjum í ljósi minnkandi umsvifa í hagkerfinu frá því sem verið hefur.
Stærsti banki landsins er Landsbankinn og hefur arðsemi eigin fjár hjá bankanum verið best af stóru bönkunum þremur. Heildareignir bankans nema 1.415 milljörðum króna, í samanburði við 1.234 milljarða hjá Íslandsbanka og 1.213 milljarða hjá Arion banka.
Tveir bankar á Íslandi eru skráðir á markað. Arion banki, sem er skráðu bæði á Íslandi og í Svíþjóð, og Kvika banki. Markaðsvirði Arion banka er um 140 milljarðar, eða um 0,71 sinnum eigið fé bankans, sem er 196 milljarðar króna. Markaðsvirði Kviku er 18,5 milljarðar króna, eða um 1,33 sinnum eigið fé bankans sem er 13,9 milljarðar.
Algengt viðmið markaðsvirðis banka í Evrópu um þessar mundir er á bilinu 0,8 sinnum 1,2 sinnum eigið fé, en á þennan mælikvarða hefur markaðsvirði stærri banka farið lækkandi.
Tekið skal fram að mikill stærðarmunur er á stóru bönkunum þremur annars vegar, og Kviku banka hins vegar.
Heildareignir stóru bankanna nema 3.862 milljörðum króna, en heildareignir Kviku eru 114,7 milljarðar króna, eða sem nemur tæplega þremur prósentum af virði eigna stóru bankanna þriggja.
Hvers virði eru ríkisbankarnir?
Íslandsbanki og Landsbankinn eru í eigu íslenska ríkisins. Samanlagt eigið fé þeirra nemur 418,9 milljörðum. Sé miðað við virði eiginfjár Arion banka, eins og markaðsvirðið var við lokun markaða í gær, þá nemur virði bankanna 297,4 milljörðum króna. Ef miðað er við hærra viðmið, allt að 1,2 sinnum eigið fé, þá nemur virðið 502,6 milljörðum króna.
Virði bankanna er þó ekki þekkt tala, og samanburður eins og þessi eingöngu settur fram til að setja eigið fé bankanna í samhengi við algenga verðmiða á bönkum sem skráðir eru á markað í Evrópu.