Seðlabanki Íslands hefur birt minnisblað innri endurskoðanda Seðlabanka Íslands, Nönnu Hrundar Aradóttur, þar sem fjallað erum samskipti sem starfsmaður gjaldeyriseftirlits átti við starfsmann RÚV þar sem fyrirhuguð húsleit hjá útgerðarfyrirtækinu Samherja kemur meðal annars fyrir.
Í minnisblaðinu er greint frá því hvernig skoðun á pósthólfum stjórnenda Seðlabanka Íslands fór fram, þar með talið Más Guðmundssonar, seðlabankastjóra, og Arnórs Sighvatssonar, aðstoðarseðlabankastjóra, á þeim tíma.
Þá er einnig rætt um skoðun upplýsinga á öðrum gögnum, og meðal annars samskipti sem fundust milli ónafngreinds starfsmanns gjaldeyriseftirlitsins og starfsmanns RÚV.
Nöfnin eru ekki gefin upp vegna þagnarskyldu og trúnaðarskyldu, segir í minnisblaðinu.
Í minnisblaðinu er meðal annars birt textabrot, frá samskiptum sem áttu sér stað 26. mars 2012, daginn áður en ráðist var í húsleit í starfsstöðvum Samherja á Akureyri og Reykjavík.
Í minnisblaði innri endurskoðanda segir í hinum tilvitnaða texta sem starfsmaður RÚV sendi , sem sendur var klukkan 11:00 26. mars 2012:
„Kastljós lagði gögn varðandi afurðasölu fyrir gjaldeyriseftirlit Seðlabankans á dögunum og óskaði eftir mati eftirlitsins á því hvort um lögbrot væri að ræða. Forstöðumenn eftirlitsins fengust ekki til að leggja mat á málið á þeim tímapunkti. Eftir því sem næst verður komist hófst þó í framhaldinu rannsókn á málinu sem leiddi til húsleitar á skrifstofum í Reykjavík og á Akureyri í morgun með aðstoð embættis sérstaks saksóknara. Gera má ráð fyrir því að rannsóknin beinist nú að öllum útflutningi síðustu misserin og einnig skilum fyrirtækisins á gjaldeyri til landsins. Rannsókn málsins er sú umfangsmesta í sögu gjaldeyriseftirlitsins.“
Í tilkynningu Seðlabanka Íslands, þar sem fjallað var um málið og bréfleg samskipti við forsætisráðuneytið, segir að málið sé litið mjög alvarlegum augum af hálfu Seðlabanka Íslands. „Innan bankans hefur allt verið gert til þess að upplýsa það. Forsætisráðherra og bankaráði Seðlabankans var greint frá niðurstöðum rannsóknar innri endurskoðunar. Seðlabankinn telur jafnframt eðlilegt að forsætisráðuneytið hafi upplýst lögreglu um þessa sömu niðurstöðu. Jafnframt hefur forsvarsmönnum Samherja verið greint frá niðurstöðum rannsóknar innri endurskoðunar. Þau bréf sem vitnað hefur verið til í fjölmiðlaumræðu eru málskjöl sem Seðlabankinn hefur að eigin frumkvæði lagt fram í því skaðabótamáli sem höfðað hefur verið vegna málareksturs bankans á hendur Samherja hf. Að öðru leyti telur Seðlabankinn rétt að frekari umfjöllun um málið eigi sér stað undir rekstri málsins hjá dómstólum,“ segir í tilkynningu bankans.