Tekjur Sósíalistaflokks Íslands voru 6,2 milljónir króna á árinu 2018, en útgjöld hans 3,6 milljónir króna. Því var 2,6 milljóna króna hagnaður á rekstri flokksins á síðasta ári þrátt fyrir að hann hafi boðið fram í fyrsta sinn í borgarstjórnarkosningunum í fyrravor.
Þetta kemur fram í útdrætti úr ársreikningi Sósíalistaflokks Íslands sem birtur hefur verið á vef Ríkisendurskoðunar.
Tekjur Sósíalistaflokksins samanstóð af framlögum frá einstaklingum og lögaðilum. Mest munaði um félagsgjöld og framlög undir 200 þúsund krónum, en þau námu alls um 3,1 milljónum króna. Tveir einstaklingar, Kári Stefánsson, forstjóri íslenskrar erfðagreiningar, og Sigurður Pálmason, gáfu flokknum sitt hvorar 250 þúsund krónurnar. Þá fékk hann 250 þúsund krónur í framlag frá félaginu Forvarnir og eftirlit ehf., í eigu Ólafs Sigurðssonar, auk þess sem framlag Reykjavíkurborgar, í formi styrkja vegna framboðs flokksins í fyrra, nam 901 þúsund krónum.
Þá hafði Sósíalistaflokkurinn tæplega 1,5 milljón króna í tekjur vegna viðburðarhalds á síðasta ári.
Náðu inn fulltrúa með róttæka stefnu og lítið fé
Sósíalistaflokkurinn náði 6,4 prósent atkvæða í borgarstjórnarkosningunum í Reykjavík í fyrra og Sanna Magdalena Mörtudóttir er í kjölfarið í mjög sterkri stöðu í borgarstjórn. Sósíalistaflokkurinn var eini flokkurinn sem náði inn kjörnum fulltrúa sem er ekki með fulltrúa á Alþingi í dag, og hafði því ekki aðgengi að þeim hundruð milljóna sem hinir sjö flokkarnir sem náðu inn er skammtað af fjárlögum ár hvert.
Sósíalistar ráku þess í stað mjög árangursríka, einbeitta, skýra og stílhreina baráttu í gegnum samfélagsmiðla fyrir sáralítið fé sem vakti mikla og verðskuldaða athygli.