Einstaklingum sem synjað hefur verið um alþjóðlega vernd og eiga ekki annan rétt til dvalar hér á landi lögum samkvæmt ber að yfirgefa landið. Þegar ákvörðun í máli er framkvæmdarhæf sendir Útlendingastofnun beiðni um lögreglufylgd til stoðdeildar ríkislögreglustjóra.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Útlendingastofnun.
Tilefni tilkynningarinnar er að á Facebook-síðu Réttur barna á flótta birtist færsla í morgun þar sem kemur fram að í nótt hafi lítilli albanskri fjölskyldu verið vísað úr landi þrátt fyrir að vera í miðju málaferli við Útlendingastofnun. Þrátt fyrir að móðirin sé komin níu mánuði á leið og þrátt fyrir að eiga tveggja ára gamalt barn – barn sem fæddist á 36. viku.
„Þrátt fyrir læknisvottorð frá mæðravernd eftir skoðun með tveimur læknum, ljósmóður og hjúkrunarfræðingi í gær, þess efnis að móðirin ætti ekki að fljúga. Þrátt fyrir að fjölskyldur með börn skuli ávallt fá tveggja vikna fyrirvara eigi að vísa þeim úr landi. Þá gerði lögreglan þetta,“ stendur í færslunni.
Samkvæmt samtökunum lá konan inni á mæðravernd í gærkvöldi eftir að hafa fengið miklar blæðingar úr nefi. Þá hefði lögreglan verið heima hjá þeim og beitt föðurinn valdi vegna þess að hann hugðist hringja í vin sinn vegna ástandsins.
„Lögreglan beið fyrir neðan gluggann hennar á mæðravernd með bíl sem lýsti inn í herbergið svo tímunum skipti í gær, tilbúin að taka fjölskylduna upp á flugvöll. Bíllinn fór ekki fyrr en 22:30.
Í skjóli nætur kom lögreglan aftur og meðferðis hafði hún læknisvottorð frá lækni að nafni Kai Blöndal. Móðirin hefur ekki fengið læknisskoðun frá Kai vegna meðgöngunnar, en samkvæmt vottorðinu taldi hún móðurina geta flogið, þrátt fyrir að vera komin 35 vikur og 5 daga á leið. Lögreglan keyrði þau upp á flugvöll til að vísa þeim úr landi. Flugið fór tímanlega en við höfum ekki fengið það staðfest hvort fjölskyldan hafi farið um borð.
Á þessum tímapunkti er ekkert vitað um líðan barnanna eða foreldranna,“ segir í færslunni.
Í nótt var lítilli albanskri fjölskyldu vísað úr landi þrátt fyrir að vera í miðju málaferli við Útlendingastofnun....
Posted by Réttur Barna á Flótta on Tuesday, November 5, 2019
Ekkert hafi komið fram um að flutningur úr landi myndi stefna öryggi í hættu
Í tilkynningu Útlendingastofnunar kemur fram að undirbúningur stoðdeildar varðandi tilhögun á lögreglufylgd snúist meðal annars að því að meta stöðu einstaklings í samræmi við heilbrigðisaðstæður. Sé það eftir atvikum gert með því að afla vottorðs frá lækni um hvort viðkomandi sé ferðafær. Ef vottorð liggi fyrir um að flutningur einstaklings úr landi muni stefna öryggi hans í hættu þá sé flutningi frestað þangað til ástandið breytist. Fyrir því séu fordæmi bæði í tilviki barnshafandi kvenna og einstaklinga sem glíma við veikindi.
„Þessu verklagi var fylgt í því máli sem nú er til umfjöllunar eins og öðrum,“ segir í tilkynningunni.
Enn fremur kemur fram hjá Útlendingastofnun að samkvæmt upplýsingum frá stoðdeild ríkislögreglustjóra aflaði hún vottorðs frá lækni á heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu um að viðkomandi væri ferðafær. „Viðkomandi leitaði síðan sjálf til læknis á kvennadeild Landspítalans þar sem gefið var út annað vottorð og stoðdeild fékk afrit af. Í því vottorði kom ekkert fram um að flutningur viðkomandi úr landi myndi stefna öryggi hennar í hættu og því var fyrirhuguðum flutningi ekki frestað.“
Eigi erfitt með langt flug
Í læknisvottorði sem No Borders Iceland birti á Facebook-síðu sinni í dag kemur fram að konan sé gengin 35 vikur og 5 daga. Hún sé slæm af stoðverkjaverkjum í baki og eigi erfitt með langt flug.
Svipmyndir af nóttinni. Vottorð frá mæðravernd. Reglur Icelandair. 2 ára barn í bið og gangi. Lögreglan að framkvæma...
Posted by No Borders Iceland on Tuesday, November 5, 2019