Eftir mikla uppsveiflu, samhliða vexti í ferðaþjónustu, er nú tekið að herða að í Reykjanesbæ, samkvæmt upplýsingum Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi eftir sveitarfélögum.
Í Reykjanesbæ hefur atvinnuleysi aukist umtalsvert að undanförnu og er nú langt yfir meðaltali á landsvísu, og mælist 6,47 prósent. Það var lítið sem ekkert, þegar vöxturinn var sem mestur í ferðaþjónustunni en fall WOW air hafði umtalsverð áhrif á hagkerfið á Reykjanesi, eins og von er.
Meðaltalið á landsvísu hefur verið á bilinu 3,5 til 4 prósent, en hefur farið hækkandi. Í Reykjavík mælist atvinnuleysið 3,94 prósent, í Kópavogi 3,23 prósent, Hafnarfirði 3,12 prósent og á Akureyri rúmlega 3 prósent.
Mest er atvinnuleysið í Árneshreppi, 9 prósent. Á meðal stærri sveitarfélaga landsins er minnsta atvinnuleysið í Skagafirði, eða 0,54 prósent.
Á vinnumarkaði á Íslandi eru um 209 þúsund manns.
Eins og áður segir hefur atvinnuleysi aukist að undanförnu, en eftir mikið hagvaxtarskeið á árunum 2011 til og með 2018, er nú annað uppi á teningnum. Hagvöxtur í fyrra var 4,6 prósent en spár gera ráð fyrir samdrætti í ár í landsframleiðslu, um 0,2 prósent, sé horft til spár Hagstofu Íslands.