Tekjur fjarskipta- og fjölmiðlafélagsins Sýnar á fyrstu níu mánuðum ársins voru 14,9 milljarðar króna, sem er 454 milljónum krónum lægri tekjur en félagið hafði á sama tímabili í fyrra. Hagnaður Sýnar fyrir fjármagnsgjöld, afskriftir og skatta var 4,1 milljarður króna og lækkaði um 153 milljónir króna á milli ára.
Hagnaður Sýnar var hins vegar 384 milljónir króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2019. Lykilástæða þess að Sýn skilaði hagnaði er að á fyrsta ársfjórðungi var bókfærður söluhagnaður vegna samruna P/F Hey, dótturfélags Sýnar hf. í Færeyjum og Nema, dótturfélag Tjaldurs, gekk í gegn á fjórðungnum og er 49,9 prósent hlutur Sýnar hf. í nýju sameinuðu félagi færður samkvæmt hlutdeildaraðferð og því ekki hluti af samstæðureikningsskilum Sýnar hf. frá byrjun þessa árs. Alls nam bókfærður söluhagnaður vegna þessa 817 milljónum króna.
Án þessa bókfærða söluhagnað vegna þeirrar sölu væri tap Sýnar á fyrstu níu mánuðum ársins 433 milljónir króna. Til samanburðar skilaði félagið 326 milljón króna hagnaði á sama tímabili 2018.
Alls var eiginfjárhlutfall félagsins 36,3 prósent í lok september síðastliðins.
Fjölmiðlatekjur minnkuðu mest
Af tekjustraumum Sýnar hafa tekjurnar minnkað mest í fjölmiðlahluta félagsins, sem er stærsta tekjustoð þess. Alls hafa tekjur vegna fjölmiðla skilað Sýn 6,3 milljörðum krónum á fyrstu níu mánuðum ársins sem er 230 milljónum krónum minna en á sama tímabili í fyrra. Þar af lækkuðu tekjurnar á þriðja ársfjórðungi, sem hófst í júlí og lauk í lok september, um 144 milljónir króna.
Tekjur félagsins vegna fastlínu hafa líka dregist umtalsvert saman það sem af er ári, eða um 163 milljónir króna. Tekjur af interneti jukust á fyrstu sex mánuðum ársins en drógust skarpt saman á þriðja ársfjórðungi, eða um 70 milljónir króna. Alls hafa þær tekjur því minnkað um 37 milljónir króna á árinu.
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, segir að uppgjörið sé vitnisburður um að stjórnendur hafi náð tökum á rekstrinum. „Nýtt spáferli sem unnið er eftir gefur okkur mun betri mynd af undirliggjandi þáttum og við teljum að það muni leiða til frekari bata í rekstri á næstu fjórðungum. Sjóðstreymi 3. ársfjórðungs batnar á milli ára og reksturinn batnar umtalsvert frá öðrum ársfjórðungi. Aðgerðir sem gripið var til í sumar, með endursamningum við birgja og fækkun stöðugilda mun koma fram í rekstri við lok ársins og að fullu á nýju ári.“
Miklar breytingar í ár
Sýn varð til þegar Fjarskipti, móðurfélag Vodafone á Íslandi, breytti nafni sínu á aðalfundi sínum í mars í fyrra. Nokkrum mánuðum áður, nánar tiltekið í desember 2017, höfðu Fjarskipti sameinað fjölmiðlastarfsemi inn í rekstur félagsins sem fól í sér meðal annars Stöð 2, Stöð2 Sport, Vísi, Bylgjuna, FM957 og Xið 977. Miðlana höfðu Fjarskipti keypt af 365 miðlum. Nafnabreytingin var framkvæmd svo að heitið væri meira lýsandi fyrir starfsemi hins sameinaða félags.
Töluverðar breytingar hafa verið að eiga sér stað á fjölmiðlahluta Sýnar undanfarin misseri og þekktu dagskrárgerðarfólki sagt upp störfum. Félagið missti réttinn af sýningu á enska boltanum yfir til samkeppnisaðilans Símans fyrir þetta tímabil, sem hófst á þriðja ársfjórðungi, og stutt er í samningur félagsins við Torg um að fá að birta efni Fréttablaðsins á vefnum Vísi.is, renni út. Heimildir Kjarnans herma að það sé 1. desember næstkomandi.