Áform lággjaldaflugfélagsins Play, sem kynnt var til sögunnar á blaðamannafundi í gær, gera ráð fyrir stórhuga framtíðarsýn fyrir næstu ár, og innan þriggja ára verði félagið komið með 10 flugvélar í rekstri og að verðmiðinn á félaginu, miðað við rekstrarhagnað fyrir fjármagnsliði og afskriftir (EBIDT.) upp á 100 milljónir Bandaríkjadala, eða um 12,5 milljarða króna, geti numið um 630 milljónum Bandaríkjadala, eða sem nemur um 78 milljörðum króna, í lok árs 2022.
Þetta er meðal þess sem kemur fram í fjárfestakynningu á félaginu - þá undir nafninu WAB air - samkvæmt heimildum Kjarnans.
Til samanburðar er Icelandair, með verðmiða upp á 40,7 milljarða króna, miðað við verðið eins og það var við lokun markaða í dag.
Það er upphæð sem nemur um 64 prósent af eigin fé félagsins miðað við stöðuna eins og hún var, í lok þriðja ársfjórðungs þessa árs. Þá var eigið fé félagsins um 500 milljónir Bandaríkjadala, eða sem nemur um 62,5 milljörðum króna.
Play leitar nú viðbótar fjármagns til þess að hefja rekstur og starfsemi, en nú þegar hefur það tryggt sér 40 milljónir evra, jafnvirði um 5,5 milljarða króna, frá breska fjárfestingasjóðnum Athene Capital, að því fram kemur í kynningargögnum fyrir fjárfesta.
Um lánsfjármögnun er að ræða sem hægt er að auka upp í 80 milljónir evra, eða sem nemur rúmlega 11 milljörðum króna.
Íslensk verðbréf koma að því að fjármagna það sem útaf stendur, eins og fram kom á kynningarfundinum í gær, en í máli Arnars Más Magnússonar forstjóra, kom fram að horft sé til þess að erlendir fjárfestar komi með 80 prósent fjármagns og 20 prósent komi frá innlendum aðilum.
Auk Arnars Más verða þeir Sveinn Ingi Steinþórsson, sem verður fjármálastjóri, Bogi Guðmundsson, sem mun halda utan um lögfræðisviðið, og Þóróddur Ari Þóroddsson, sem verður meiðeigandi, í stjórnendateymi félagsins.
Unnið hefur verið að stofnun félagsins í nokkra mánuði undir heitinu WAB Air, en það stóð fyrir „We Are Back“. Lykilfólk í hópnum á bakvið stofnun félagsins eru fyrrverandi stjórnendur hjá WOW air. Til að byrja með ætlar Play að gefa eitt þúsund frí flugmiða til þeirra sem skrá sig á heimasíðu félagsins nú, en vefslóð hennar verður www.flyplay.com.
Í áætlunum sem kynntar hafa verið fyrir fjárfestum er gert ráð fyrir um 90 prósent sætanýtingu, og að ekki fáist neitt greitt frá færsluhirðum fyrr en flug hefur verið farið, en greiðsluflæði til flugfélaga byggir á fjármagni sem kemur frá viðskiptavinum með greiðslukortum og þar með færsluhirðum.
Í kynningunni er miðað við að fjárfestar sem komi inn í félagið í upphafi, muni geta fengið 12 til 13 földun á fjárfestingu sína á innan við þremur árum, gangi áætlanir félagsins eftir og að gefnum forsendum fyrir verðmati.
Í tilkynningu frá félaginu í dag, kemur fram að hátt í þúsund starfsumsóknir höfðu borist PLAY í hádeginu í dag. Enn eru að berast umsóknir en aðeins er liðinn sólarhringur síðan tilkynnt var um flugfélagið PLAY. Um 26 þúsund hafa skráð sig á póstlistann hjá PLAY, segir í tilkynningunni.
Play ætlar að tengja Norður Ameríku við Íslands og Evrópu, en Arnar Már fór ekki yfir nákvæmlega hverjir áfangastaðir félagsins yrðu, á kynningarfundinum í gær. Félagið hyggst notast við Airbus vélar, og gera áætlanir ráð fyrir að félagið einblíni fyrst og fremst á lággjaldaflugfélags rekstur. Þar sem lagt er upp með að bjóða gott verð á flugi, með hagkvæmum vélum og leiðakerfi.