Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að lækka meginvexti sína, oft nefndir stýrivextir, óbreyttum í þrjú prósent. Sú ákvörðun úr takti við væntingar margra greiningaraðila, sem bjuggust við óbreyttum vöxtum.
Í yfirlýsingu peningastefnunefndar segir að samkvæmt nýrri þjóðhagsspá sem birt er í nóvemberhefti Peningamála hafi horfur um hagvöxt á seinni ársins 2019 versnað frá því að síðasta spá var birt í ágúst. „Hagvöxtur á fyrri hluta ársins var hins vegar meiri en spáð var og er því gert ráð fyrir 0,2 prósent samdrætti á árinu öllu eins og í ágúst. Horfur fyrir næsta ár hafa einnig versnað og er nú spáð 1,6 prósent hagvexti.“
Alls hafa stýrivextir því lækkað um 1,5 prósentustig frá því í maí síðastliðnum þegar yfirstandandi vaxtalækkunarferli hófst. Skömmu áður, í apríl, höfðu hinir svokölluðu lífskjarasamningar verið undirritaðir. Hluti af því samkomulagi var að skipa sérstaka forsendunefnd, sem í sitja þrír fulltrúar atvinnurekenda og þrír fulltrúar verkalýðshreyfingarinnar, til að fylgjast með hvort að forsendur samninganna væru að halda. Ein slík forsenda var lækkun stýrivaxta, sem þá voru 4,5 prósent.
Ekki var tilgreint sérstaklega um það opinberlega hversu mikið vextirnir þyrftu að lækka til að forsendur héldu en Kjarninn greindi frá því 4. apríl síðastliðinn að gert hafi verið hliðarsamkomulag, svokallað „skúffusamkomulag“ sem er ekki hluti af opinberum kjarasamningi, sem fól í sér að vextir yrðu að lækka um 0,75 prósentustig fyrir september 2020, þegar fyrsta endurskoðun sérstakrar forsendunefndar mun eiga sér stað, til að kjarasamningar haldi.
Vextirnir voru búnir að lækka niður um það í júní 2019, 15 mánuðum áður en fyrsta endurskoðunin mun eiga sér stað, og hafa haldið áfram að lækka síðan.
Peningastefnunefndin segir að áhrif af þessari hröðu vaxtalækkun eigi enn eftir að koma fram að fullu. „Lækkun vaxta hefur stutt við eftirspurn og miðað við spá bankans ætti núverandi vaxtastig að duga til að tryggja verðstöðugleika til meðallangs tíma og fulla nýtingu framleiðsluþátta. Þá mun boðuð slökun í aðhaldi ríkisfjármála leggjast á sömu sveif. Efnahagshorfur gætu hins vegar verið of bjartsýnar, einkum vegna óvissu í alþjóðlegum efnahagsmálum.“
Samhliða því að vextir hafa lækkað hefur verðbólga einnig verið að lækka, eftir að hafa tekið kipp upp á við í lok síðasta árs og byrjun árs 2019. Hún er nú 2,8 prósent. Í yfirlýsingu peningastefnunefdnar segir að undirliggjandi verðbólga hafi verið þrálátari og að horfur séu á að verðbólga hjaðni hraðar en spáð var í ágúst og að hún verði komin í markmið undir lok þessa árs. „Verðbólguvæntingar hafa haldið áfram að lækka og eru við markmið miðað við flesta mælikvarða. Taumhald peningastefnunnar hefur því aukist lítillega milli funda.“