Loftslagsmál voru í öndvegi á Norðurlandaráðsþingi í Stokkhólmi í Svíþjóð í lok október síðastliðins. Oddný Harðardóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, segir í samtali við Kjarnann að ekki sé nóg að gert í loftslagsmálum. „Á þinginu var ekki talað um haldbærar aðgerðir. Það sem ég skynja í umræðunni er að stjórnmálamenn vilja ekki stíga fram og segja: „Við þurfum að gera þetta hérna!““
Athygli vakti þegar Oddný spurði á þinginu Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur, um hugmynd sem hún fyrst heyrði hjá Andra Snæ Magnasyni. Oddný spurði hana sem sagt hvernig henni litist á að þeir sem keyra bensín- og dísilbíla skildu bílinn eftir heima tíunda hvern dag á árinu 2020 og gerðu svo enn betur næstu ár.
Frederiksen svaraði um hæl og sagði að sér litist mjög illa á þessa hugmynd.
Metnaðarfull áætlun sem þau vita ekkert hvernig þau ætla að útfæra
Oddný bendir á að Frederiksen verði í forsvari fyrir Norðurlöndin á þessu ári en yfirskrift formennskuáætlunar Danmerkur, Færeyja og Grænlands fyrir árið 2020 er „Samtaka um framtíðarlausnir“. Ætlunin er að hin nýja framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2030 verði að veruleika – að Norðurlöndin verði sjálfbærasta og best samþætta svæði heims.
„Þau eru með mjög metnaðarfulla áætlun í loftslagsmálum sem þau vita ekkert hvernig þau ætla að útfæra. Ég spyr hana þess vegna á þinginu hvort hún vilji ekki vera í alvörunni leiðtogi Norðurlandanna í þessum efnum og koma með haldbærar aðgerðir, til dæmis varðandi það að minnka akstur á árinu 2020 á bensín- og dísilbílum um 10 prósent. Þeir sem eigi þannig bíla geymi þá heima tíunda hvern dag,“ segir hún. „Henni fannst það alveg hræðilega vitlaus hugmynd vegna þess að fólk þyrfti að komast leiðar sinnar.“
Oddný segir að hún hafi auðvitað ekki verið að tala um að fólk ætti ekki að komast leiðar sinnar. „Rannsóknir hafa sýnt að það sé loftslagskreppa, það er bara þannig. Og það getur enginn gert neitt nema við. Stjórnvöld verða að draga vagninn, þau verða að segja almenningi, fyrirtækjum og stofnunum hvaða skref er best að stíga svo við náum árangri sem fyrst.“
Hún segir að stjórnvöld þori þó ekki að stíga þetta skref.
„Það er mín tilfinning. En auðvitað þarf að vera samþykki fyrir því í samfélaginu að við stöndum frammi fyrir þessari ógn og að við verðum að gera eitthvað. Við verðum að vera tilbúin í það öll,“ segir hún.
Samspil almennings og fyrirtækja
Oddný telur mikilvægt að huga að samspili almennings og fyrirtækja í loftslagsmálum. „Það þýðir til dæmis ekki að biðja kjötframleiðendur að minnka framleiðslu á meðan almenningur er tilbúinn að kaupa. Það verður að vera samspil þarna á milli. Við þurfum að draga úr kjötneyslu þannig að eftirspurnin verði ekki eins mikil,“ segir hún.
„Svo er heldur ekki nóg að segja: „Þið verðið að breyta neysluvenjum ykkar. Það er vegna þess að þið eruð svo neyslufrek að við erum í þessum vanda hér.“ Fólk verður að vita hvað sé besta leiðin. Við verðum að þora,“ segir Oddný.
Hægt sé að setja upp mælanlegt markmið með hjálp vísindamanna og síðan meta valkostina sem bjóðast. „Sumir til að mynda geta ekki dregið úr akstri. Þá geta þeir gert eitthvað annað. Um leið og við erum komin með samþykki í samfélaginu að við verðum að gera eitthvað þá er hægt að finna leiðir fyrir hvern og einn.“
Aðgerðirnar mega ekki auka ójöfnuð
Oddný tekur það sérstaklega fram að aðgerðir í loftslagsmálum megi ekki verða til þess að auka ójöfnuð. Passa þurfi upp á velferðina og jöfnuðinn. „Svo að þeir sem eru veikir fyrir verði ekki enn veikari í því breytingaferli sem framundan er.“
Enn fremur finnst henni mikilvægt að verkalýðsfélögin verði tekin með í samræðuna. „Að áhrifin séu metin á kjör fólks og á vinnandi fólk. Verkalýðsfélögin hafa náð í gegn ýmiss konar stórum málum og þau þurfa að vera með í breytingaferlinu sem fylgir loftslagsmálum. Þau passa upp á kjör fólksins,“ segir hún.
Verða líka að hittast
Kolefnisspor Norðurlandaráðsþingsins er stórt og þegar Oddný er spurð út í það hvort það sé þess virði þá svarar hún því játandi. „Við þurfum reyndar að velja okkur fundi en þessi þing skipta mjög miklu máli fyrir norræna samvinnu. 90 prósent Norðurlandabúa vilja aukna norræna samvinnu, hún verður ekki nema við hittumst. Hún mun ekki gerast í gegnum tölupósta og síma. Hún gerist auðvitað einnig milli þinga en við þurfum að hittast og skiptast á skoðunum og fá hugmyndir.“
Það besta sem kemur út úr samvinnu sem þessari fyrir einstaklinginn sé sú þekking sem farið er með heim. „En svo eru náttúrulega í nefndunum og í flokkahópunum búnar til alls kyns málamiðlanir – vegna ýmissa mála sem eru smá og stór – sem norræna ráðherranefndin styrkir með fjármunum og eitthvað verður úr.“ Þannig sé samstarfið mjög verðmætt fyrir Íslendinga.
„Við stöndum jafnframt saman um þessi norrænu gildi, þau eru ekkert sjálfsögð. Það er vegna þess að samfélögin hafa passað upp á þau. Þessi frjálsu opnu samfélög. Traust á milli manna og til stofnana,“ segir Oddný að lokum.