Miðflokkurinn auglýsir í Morgunblaðinu í dag eftir reynslusögum frá almenningi sem lent hefur „í kerfinu“. Auglýsingin er liður í þeirri stefnumótun flokksins að gera það að forgangsverkefni sínu að takast á við „báknið“. Miðflokkurinn ætlar sér að greina vandann við „báknið“ og leysa hann svo. Á meðal þess sem flokkurinn stefnir, samkvæmt auglýsingunni, að er einföldun regluverks, aukin vernd borgara gegn yfirvaldi, aukið jafnræði óháð efnahag og þjóðfélagsstöðu, einfaldari samskipti við opinberar stofnanir og minna bákn og lægri skattar sem eigi að leiða til betri lífskjara.
Þeir sem telja sig geta svarað þessum spurningum Miðflokksins jákvætt eru beðnir um að senda reynslusögur sínar til flokksins undir nafnleynd nema samið verði um annað.
Miðflokkurinn heldur flokksráðsfund um komandi helgi í Reykjanesbæ og auglýsingin er liður í upptakti fyrir þann fund. Um 70 manns sitja í Flokksráði Miðflokksins og hefst formleg dagskrá með ræðu Sigmundar Davíð Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, klukkan 13:15 á laugardag.
Auglýsingin er líka í framhaldi af þeim tólf atriða áherslulista sem flokkurinn birti við upphaf yfirstandandi þings, þar sem „Báknið burt“ var efst á blaði. Það slagorð var meginstefið í stjórnmálum ungra sjálfstæðismanna sem komust til áhrifa á níunda áratug síðustu aldar. Fremstur í flokki þeirra var Davíð Oddsson, núverandi ritstjóri Morgunblaðsins.
Miðflokkurinn mældist meðp 11,5 prósent fylgi í síðustu könnun Gallup á fylgi stjórnmálaflokka sem er rétt yfir kjörfylgi hans í síðustu kosningum. Stuðningur við flokkinn hefur sveiflast mikið síðastliðið ár. Hann mældist 5,7 prósent í desember 2018, í kjölfar Klausturmálsins svokallaða, en var kominn í 13,4 prósent í lok ágúst síðastliðins, rétt áður en hin innleiðing þriðja orkupakkans svokallaða, sem flokkurinn barðist hart gegn, varð að veruleika.