Breytt stefna í utanríkisþjónustu Norðurlandanna, meðal annars Noregs og Danmerkur, hefur skipt miklu máli við að styrkja viðskiptasambandið við tæknirisa eins og Amazon. Miklir hagsmunir eru í húfi í mörgum tilvikum, þar sem markaðstorg Amazon er einn stærsti einstaki markaður í heimi þegar kemur að netverslun.
Þjóðríki eru sífellt meira farin að höndla samskipti við tæknirisanna eins og um þjóðríki sé að ræða, og nýlegar skipanir á sendiherrum, sem bera ábyrgð á uppbyggingu góðra sambanda við tæknifyrirtæki og fjárfesta, eru til marks um það.
Noregur gerði meðal annars viðskiptasamning við viðskiptaráð Washington ríkis, sem tekur til nýsköpunar, rannsókna og aukinna tengsla á sviði matvöruviðskipta, hinn 17. maí síðastliðinn. Samningurinn á að styrkja viðskiptasambandið við Washington ríki og þau fyrirtæki sem eru þar með höfuðstöðvar, meðal annars Amazon, Microsoft, Starbucks og T-Mobile.
Þetta er meðal þess sem fjallað er um í samantekt Vísbendingar um Amazon hagkerfið og tengsl þess við íslenskan sjávarútveg. Miklar tæknibreytingar í smásölu, sem Amazon hefur leitt á undanförnum árum, eru farnar að hafa mikil áhrif á matvælaframleiðslu. Krefjandi verður fyrir íslenskan sjávarútveg að halda samkeppnishæfni á markaðnum, í ljósi fjarlægðar Íslands frá mörkuðum og mikilla flutninga, eftir því sem netverslun verður rótgrónari og heimsendingarkerfi háþróaðri.
Hægt er að nálgast skýrsluna hér, og gerast áskrifandi að Vísbendingu hér.