Bjarni Benediktsson segir Ágúst Ólaf Ágústsson, þingmann Samfylkingarinnar, beita „ómerkilegum blekkingum“ þegar hann talar um að ríkisstjórnin sé að lækka veiðigjöldin sem útgerðarfyrirtæki borga úr 7 milljörðum í 5.
Þetta kemur fram á Facebook síðu Bjarna. „Þetta er ómerkilegur blekkingaleikur hjá Ágústi Ólafi. Það liggur ekki fyrir þinginu nein tillaga um að lækka veiðigjaldið. Það er hins vegar að koma fram áætlun um hvaða tekjur muni skila sér á næsta ári, og þær eru að lækka vegna mikilla fjárfestinga í greininni, sem hafa áhrif á niðurstöðuna. Yfir lengri tíma jafnast svona lagað út.
Ef reglum um veiðigjald hefði ekki verið breytt á fyrra þingi hefði gjaldið orðið enn lægra á næsta ári,“ segir Bjarni.
Ágúst Ólafur segir að veiðigjaldið sé nú orðið svo lágt að það dekki ekki þann kostnað sem skattgreiðendur verði fyrir vegna þjónustu hins opinbera gagnvart atvinnugreininni. „Samkvæmt lögum eiga veiðileyfagjöld m.a. að mæta þeim kostnaði, sem vill svo til að er 5,1 milljarður og er því hærri en það sem ríkisstjórnin leggur nú til að veiðileyfagjöldin verði,“ sagði í Facebook færslu Ágústs Ólafs.
Bjarni mótmælir þessari túlkun Ágústs Ólafs, og segir einfaldlega að nú sé að koma fram áætlun um hvernig tekjur muni skila sér á árinu, og þær hangi saman við fjárfestingu í greininni og aflaverðmæti.