Í frumvarpi til fjáraukalaga er gerð tillaga um framlag til Landsréttar verði hækkað um 20,3 milljónir króna og að 7,8 milljónum króna verði millifærðar úr varasjóði málaflokksins. Ástæðan er þörf sem skapast hefur til að mæta launakostnaði þriggja skipaðra landsréttardómara frá því í ágúst vegna áhrifa dóms Mannréttindadómstóls Evrópu um að fjórir dómarar séu ekki löglegir til að dæma við réttinn. Áætlaður heildarkostnaður við framkvæmdina er því 28,1 milljónir króna. Í frumvarpinu segir að útgjöldin séu „ ófyrirséð og metin óhjákvæmileg.“
Mannréttindadómstóllinn felldi dóm sinn í Landsréttarmálinu svokallaða 12. mars síðastliðinn. Í honum fengu bæði Sigríður Á. Andersen, fyrrverandi dómsmálaráðherra, og Alþingi á sig áfellisdóm fyrir það hvernig haldið var á skipan 15 dómara við Landsrétt í byrjun júní 2017.
Dómararnir fjórir sem um ræðir eru Arnfríður Einarsdóttir, Ragnheiður Bragadóttir, Ásmundur Helgason og Jón Finnbjörnsson. Þau hafa ekki dæmt í málum í Landsrétti frá því að dómurinn féll.