Á fjáraukalögum 2019 er lagt til að 40 milljónir króna verði veittar til Alþingis vegna „mikillar viðveru starfsmanna Alþingis umfram almenna starfsskyldu.“ Ástæðan er sú að á vordögum hafi verið óvenju mikið annríki á Alþingi sem kallaði á mjög mikla viðveru starfsmanna skrifstofunnar umfram almenna vinnuskyldu. „Alla jafna er mikið álag á vordögum þingsins og gert ráð fyrir því í áætlunum skrifstofunnar en á yfirstandandi ári var það óvenju mikið og varði vikum saman. Ástæðurnar voru málþóf í þingsalnum og mörg, umfangsmikil og þung mál sem sinna þurfti á nefndasviði.“
Þetta kemur fram í frumvarpi til fjáraukalaga sem Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, dreifði á Alþingi um helgina.
Það málþóf sem vísað er í var stundað af þingmönnum Miðflokksins vegna innleiðingu þriðja orkupakka Evrópusambandsins. Set var nýtt umræðumet á Alþingi í umræðum um hann en þorri þeirra fór þannig fram að einungis þingmenn Miðflokksins fluttu ræður, oft um miðjar nætur.
Þegar málið var loks afgreitt, á sérstökum þingstubbi í september, höfðu umræður um þriðja orkupakkann staðið yfir í um 150 klukkustundir.