Á nýframlögðu frumvarpi til fjáraukalaga er gert ráð fyrir 790 milljón króna framlagi til samgöngumála „ófyrirséðs viðbótarkostnaðar sem Vegagerðin þurfti að greiða vegna nýs Herjólfs“.
Þar er annars vegar um að ræða greiðslur til Crist skipasmíðastöðvar í kjölfar lokauppgjörs við afhendingu skipsins um mitt ár og hins vegar kostnaðarauka vegna seinkunar á afhendingu skipsins til Vestmannaeyjabæjar. “
Nýr Herjólfur var smíðaður hjá skipasmíðastöðinni Crist S.A. í Gdansk í Póllandi. Hann var afhentur fyrr á þessu ári en upphaflega neitaði skipasmíðastöðin að láta ferjuna af hendi vegna þess að hún krafðist viðbótargreiðslu. Sátt náðist í málinu í lok maí. Herjólfur var svo afhentur í byrjun júní 2019.
Ríkið ber ábyrgð á kostnaði rekstrarfélags
Þá er lagt til að ríkissjóður greiði 258 milljónir króna til að „mæta ófyrirséðum kostnaðarauka vegna seinkunar á afhendingu nýja Herjólfs til Vestmannaeyjabæjar“.
Í frumvarpinu kemur fram að Herjólfur ohf., sem rekur nýju ferjuna, hafi sent kröfu til Vegagerðarinnar vegna áfallins kostnaðar á grundvelli breyttra rekstrarforsendna vegna seinkunar á afhendingu skipsins, frá mars til júlí 2019. „Krafan hefur verið til skoðunar hjá Vegagerðinni og hafa 258 m.kr. verið metnar sem réttmæt krafa að svo stöddu. Samkvæmt samningi ríkisins við Vestmannaeyjabæ átti rekstrarfélagið (Herjólfur ohf.) að fá nýja ferju afhenta í byrjun árs 2019 þannig að hægt yrði að hefja siglingar 30. mars þegar rekstrarfélag bæjarins tæki yfir rekstur siglingaleiðarinnar. Á þeim tíma átti að vera lokið æfingum og þjálfun skipshafnar og öðrum undirbúningi að því að yfirtaka reksturinn. Ekki var hægt að sjá fyrir þær tafir sem urðu á afhendingu ferjunnar. Um er að ræða tímabundinn viðbótarkostnað sem féll til innan ársins vegna tafa og óhjákvæmilega þurfti að bregðast við aðstæðum til að halda samgöngum milli lands og eyja samkvæmt áætlun.“