Skúi Mogensen, stofnandi, eigandi og fyrrverandi forstjóri hins gjaldþrota flugfélags WOW air, segir að það sé „llöngu orðið ljóst að það hefði verið mun hagkvæmari fyrir ríkið að koma að björgun WOW heldur en að leyfa því að falla“.
Þetta segir hann í stöðuuppfærslu á Facebook vegna birtingar á frumvarpi til fjáraukalaga um helgina þar sem fram kemur að ríkissjóður muni verða rekinn með tæplega 15 milljarða króna halla á þessu ári. Stór ástæða þess er sú að gjaldþrot WOW air hefur leitt af sér mikinn viðbótarkostnað fyrir ríkissjóð vegna 6,3 milljarða króna viðbótarframlags til Atvinnutryggingasjóðs vegna aukins atvinnuleysis og tæplega 1,3 milljarðar króna framlags til Ábyrgðarsjóðs launa til að mæta auknum útgreiðslum vegna gjaldþrota fyrirtækja á árinu.
Það er löngu orðið ljóst að það hefði verið mun hagkvæmari fyrir ríkið að koma að björgun WOW heldur en að leyfa því að...
Posted by Skuli Mogensen on Sunday, November 10, 2019
Skúli segir að það hafi þegar verið búið að endurskipuleggja rekstur WOW air og koma honum í sama horf og þegar best lét á árunum 2015/6. „Ríkið hefði hæglega getað gripið inní líkt og Þjóðverjar gerðu með AirBerlin á meðan verið væri að tryggja langtíma fjármögnun félagsins.
Átti þrjár milljónir á reikningi við þrot
16. ágúst, héldu skiptastjórar þrotabús WOW air, Sveinn Andri Sveinsson og Þorsteinn Einarsson, fund með kröfuhöfum félagsins. Þá lá fyrir að kröfum upp á 151 milljarð króna hafði verið lýst í búið, þar af 138 milljarða króna kröfum sem teljast almennar. Eins og staðan var þá var 1,1 milljarður króna á bankareikningum WOW air upp í þær kröfur. Það þýddi að 0,7 prósent var til upp í lýstar kröfur, sem þó á eftir að taka afstöðu til hvort að verði viðurkenndar eða ekki.
Í skýrslu skiptastjóranna va farið yfir hver raunveruleg staða mála var hjá WOW air þegar skellt var í lás með hvelli í lok mars. Þar var meðal annars opinberað að við gjaldþrot félagsins hafi verið um þrjár milljónir króna lausar til ráðstöfunar á bankareikningum WOW samstæðunnar. Til að setja þá tölu í samhengi má benda á að við gjaldþrot störfuðu alls 963 manns hjá WOW air. Lausafé samstæðunnar hefði ekki dugað til að greiða nema örfáum þeirra sem þar störfuðu laun í byrjun apríl 2019.
Þar var sú niðurstaða sett fram að WOW air hafi verið ógjaldfært í síðasta lagi um mitt ár 2018. Það þýðir að WOW air gat ekki greitt gjaldfallnar skuldir sínar en hefur samt sem áður ekki verið úrskurðaður gjaldþrota. Í skýrslu skiptastjóranna sagði að þeir telji „óhjákvæmilegt að fram fari nánari greining á því hvenær WOW var sannarlega ógjaldfært.“