Tekjur Flokks fólksins og Pírata jukust til muna í fyrra samanborið við árið áður. Að uppistöðu komu þær tekjur úr ríkissjóði eða alls 95 prósent af tekjum Pírata og 97,5 prósent af tekjum Flokks fólksins. Þetta er á meðal þess sem fram kemur í útdrætti úr ársreikningi Flokks fólksins og Pírata sem Ríkisendurskoðun birti í dag.
Þessi aukning í tekjum má rekja til þess að árið 2018 var fyrsta árið í rekstri þeirra stjórnmálaflokka sem eiga fulltrúa á þingi frá því að framlög til þeirra úr ríkissjóði voru hækkuð um 127 prósent, að tillögu sex flokka sem sæti eiga á Alþingi.
Framlög úr ríkissjóði til flokkanna átta á þingi áttu að vera 286 milljónir króna í fyrra en urðu 648 milljónir króna eftir að sú ákvörðun var tekin. Einu flokkarnir sem skrifuðu sig ekki á tillöguna voru Píratar og Flokkur fólksins.
Þegar kosið verður næst, árið 2021, munu flokkarnir átta sem náðu inn á þing í haustkosningunum 2017 verða búnir að fá alls úthlutað rúmlega 2,8 milljörðum króna úr ríkissjóði vegna áranna 2018-2021 til að standa straum af starfsemi sinni.
Flokkur fólksins fékk 6,9 prósent atkvæða í kosningunum 2017 og Píratar 9,2 prósent atkvæða.
Flokkur fólksins hagnaðist um 27 milljónir
Tekjur Flokks fólksins voru alls 52,3 milljónir króna í fyrra. Líkt og kom fram hér fyrir ofan komu þær tekjur að uppistöðu úr ríkissjóði eða alls rúmlega 51 milljón. Rekstur flokksins kostaði alls 25,7 milljónir og skilaði rekstur flokksins því töluverðum hagnaði eða alls 26,9 milljónum króna.
Flokkurinn skuldaði 920 þúsund krónur í lok síðasta árs og lækkuðu skuldir hans milli ára úr 5,8 milljónum króna.
Flokkur fólksins fékk ekki einstaklingsframlög hærra en 200 þúsund krónur í fyrra.
Skuldir Pírata jukust til muna á milli ára
Píratar fengu einnig engin framlög yfir 200 þúsund krónur frá einstaklingum í fyrra. Að uppstöðu komu tekjur Píratar úr ríkissjóði eða alls 77,8 milljónir. Heildartekjur flokksins voru 81,8 milljónir í fyrra en rekstur flokksins kostaði alls 92,4 milljónir og skilaði reksturinn því smávægilegu tapi.
Flokkurinn skuldaði alls 23 miljónir í árslok en flokkurinn skuldaði rúma eina milljón árið þar á undan.
Ný lög samþykkt í fyrra
Ný lög um fjármál stjórnmálaflokka voru samþykkt á Alþingi í desember í fyrra. Á meðal breytinga sem þau lög fela í sér eru að stjórnmálaflokkar mega nú taka á móti hærri framlögum frá fyrirtækjum og einstaklingum. Hámarksframlagið var 400 þúsund krónur en var hækkað í 550 þúsund krónur.
Auk þess var sú fjárhæð sem einstaklingur þarf að gefa til að vera nafngreindur í ársreikningum viðkomandi flokka eða frambjóðenda hækkuð úr 200 þúsund krónum í 300 þúsund krónur.
Hugtakið „tengdir aðilar“ var líka samræmt, en Ríkisendurskoðun gerði í fyrra athugasemdir við umframframlög aðila sem voru gefin í gegnum nokkur mismunandi félög í eigu sömu aðila.
Þá var ákveðið að láta stjórnmálaflokkanna skila ársreikningum sínum til ríkisendurskoðanda fyrir 1. nóvember ár hvert í stað 1. október líkt og nú er. Sú grundvallarbreyting fylgdi með að Ríkisendurskoðun mun hætta að birta takmarkaðar upplýsingar úr reikningum flokkanna, svokallaðan útdrátt, og birtir þess í stað ársreikninganna í heild sinni áritaða af endurskoðendum.
Þessi breyting á hins vegar ekki að taka gildi fyrr en á næsta ári, þrátt fyrir að nýju lögin séu þegar komin í gagnið.