Jóhannes Stefánsson, fyrrverandi verkefnastjóri hjá Samherja í Afríku, segir að Kristján Þór Júlísson, núverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og fyrrverandi stjórnarformaður Samherja, hafi fundað með þremur mönnum frá Namibíu sem unnu að því að útvega Samherja makrílkvóta gegn mútugreiðslum.
Þetta kemur fram í Stundinni, en haft er eftir Jóhannesi að Þorsteinn Már, forstjóri Samherji, hefði kynnt Kristján Þór sem „sinn mann“ hjá stjórnvöldum á fundi árið 2014.
Jóhannes segir jafnframt að Kristján Þór hafi ekki stoppað lengi á fundinum, aðeins um 10 mínútur en erindi hans á fundinn hafi verið óljóst. Kristján Þór neitar því ekki að hafa hitt mennina en segist ekki hafa verið formlegur þátttakandi á fundinum. Hann segist aldrei hafa farið á skrifstofu Samherja eftir að hann varð sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.
Í umfjöllun Stundarinnar segir enn fremur að norski bankinn DNB NOR, sem norska ríkið á þriðjungshlut í, hafi látið loka bankareikningum félagsins Cape Cod FS í skattaskjólinu Marshall eyjum í fyrra, vegna hættu á peningaþvætti. Samherji notaði Cape Cod til að greiða laun sjómanna sinna í Namibíu, að því er fram kemur í Stundinni.
Eins og fram hefur komið, þá birti Wikileaks í gær 30 þúsund skjöl um Samherja og meðal annars ítarleg gögnum um starfsemi fyrirtækisins í Namibíu og mútugreiðslur til sjávarútvegsráðherra landsins og um fyrrnefndra þriggja manna sem vinna náið með honum. Greint var fyrst frá gögnunum og málinu í heild, í fréttaskýringaþættinum Kveiki á RÚV í gær.