Wikileaks hefur birt 30 þúsund skjöl um Samherja, þar sem meðal annars er fjallað um starfsemi fyrirtækisins í Namibíu í Afríku.
Í fréttaskýringaþættinum Kveiki á RÚV í kvöld kom fram að Samherji hefði mútað ráðamönnum í Namibíu til að verða sér út um kvóta, og beitt aðferðum í bókhaldi til að komast hjá því að greiða skatta.
Í gögnunum er meðal annars að finna samskipti milli starfsmanna Samherja, þar sem fjallað er um greiðslur til sjávarútvegsráðherra Namibíu - og samstarfsmanna hans - vegna úthlutunar á kvóta.
Í þættinum í kvöld var meðal annars rakið hvernig Samherji hefur komið sér fyrir í Namibíu, og haft miklar tekjur af makrílveiðum og komið hagnaði af þeim til félags í eigu Samherja sem hefur heimilisfesti á Kýpur.
„Þetta er bara glæpastarfsemi, þetta er bara skipulögð glæpastarfsemi. Þeir eru að græða á auðlindum landsins, taka allan pening út úr landi til þess að fjárfesta annarstaðar, þá í Evrópu eða Bandaríkjunum,” sagði Jóhannes Stefánsson, verkefnastjóri hjá Samherja, í viðtali við Kveik. „Ég braut lög fyrir hönd Samherja þegar ég var þarna. Ég var maðurinn til að ná í kvótana og hafa tengingarnar og svoleiðis og svo er ég bara með ordur frá hærra sett mönnum,“ sagði Jóhannes.