Nýi Seðlabankastormurinn hófst eftir að Kveikur nálgaðist Þorstein Má

Þorsteinn Már Baldvinsson hefur frá því í lok síðasta mánaðar ítrekað ásakað RÚV og Helga Seljan um hafa verið gerendur í rannsókn á Samherja sem hófst 2012. Þegar ásakanirnar hófust hafði Þorsteini þegar verið greint frá umfjöllunarefni Kveiks.

Þorsteinn Már Baldvinsson, Samherji. Mynd: Skjáskot/RÚV
Auglýsing

Samherji, og sérstaklega forstjórinn Þorsteinn Már Baldvinsson, hafa beint sjónum sínum mjög hart að RÚV síðustu vikur og ásakað ríkisfjölmiðilinn um að vera geranda í húsleit sem átti sér stað fyrir rúmum sjö árum. Það eru nýmæli, en áður hafði reiði Samherja vegna rannsóknar Seðlabanka Íslands á meintum brotum fyrirtækisins á gjaldeyrislögum beinst gegn bankanum, Má Guðmundssyni, fyrrverandi seðlabankastjóri, og Ingibjörgu Guðbjartsdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra gjaldeyriseftirlits Seðlabanka Íslands. 

Í umfjöllun Kveiks um meintar mútugreiðslur og skattasniðgöngu Samherja í Namibíu sem sýndur var á RÚV í gærkvöldi kom fram að fréttaskýringaþátturinn leitaði til Þorsteins Más um viðtal vegna umfjöllunar þáttarins um meintar mútugreiðslur og skattasniðgöngu Samherja í Namibíu 15. október síðastliðinn. Hann hafnaði þeirri beiðni en fékk svo skriflega beiðni tíu dögum síðar, 25. október, þar sem Kveikur greindi honum frá því í smáatriðum hvað var verið að fjalla um. 

27. október var greint frá því í fréttum Stöðvar 2 að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra hefði vísað máli vegna ætlaðs upplýsingaleka frá Seðlabanka Íslands til RÚV í aðdraganda húsleitar hjá Samherja árið 2012 til lögreglu. 

Sú umfjöllun, þar sem Þorsteinn Már var til viðtals og bar þungar sakir á RÚV og einn fréttamanna Kveiks, Helga Seljan, hófst því tveimur dögum eftir bréf Kveiks um umfjöllunarefni þáttar kvöldsins var sent til Samherja.

Upplýstur 9. september

Forsaga hins ætlaða upplýsingaleka var sú að þáverandi seðlabankastjóri, Már Guðmundsson, upplýsti Katrínu með bréfi sent 18. ágúst 2019 um að starfsmaður Seðlabanka Íslands hefði átt í tölvupóstsamskiptum við starfsmann RÚV í aðdraganda húsleitarinnar í mars 2012. Í þeim samskiptum virtist sem fréttamaðurinn hefði upplýsingar um húsleitina áður en hún fór fram en að engar trúnaðarupplýsingar hefðu verið sendar fréttamanninum. 

Auglýsing
Ásgeir Jónsson tók við sem seðlabankastjóri tveimur dögum eftir að bréfið var sent og ákvað að leggja það fram sem hluta af málsskjölum vegna skaðabótamáls sem Samherji hefur höfðað á hendur Seðlabanka Íslands. Það mál var þingfest 9. september. Í kjölfar þess hringdi Ásgeir í Þorstein Má og tjáði honum að hann geti gengið að þessum upplýsingum sem hluta af málsskjölunum. Í málinu krefur Samherji Seðlabanka Íslands um 322 milljónir króna í bætur vegna aðgerða gegn fyrirtækinu. 

Rúmum sex vikum síðar rataði bréfið í fréttir.

RÚV og Helgi sagðir gerendur

Í fréttum Stöðvar 2 þetta kvöld sagði Þorsteinn Már: „Helgi Seljan sagði það 20. janúar [2012] austur á fjörðum að hann ætlaði að taka mig. Ég fékk hringingu um það 22. janúar að hann hafi sagst ætla að taka mig fyrir fiskverð. Þannig að Helgi Seljan og RÚV eru gerendur í þessu ásamt Seðlabankanum og má segja þaulskipulögð árás á Samherja og starfsfólk Samherja.“

Síðar sagði hann: „Eins og að þessu var staðið að hálfu Seðlabankans og RÚV og Helga Seljan að þá var fólk og fyrirtæki fyrir miklu tjóni.“

Helgi Seljan er einn þeirra sem vann umfjöllun Kveiks sem sýnd var í gærkvöldi. Þetta var í fyrsta sinn sem Þorsteinn Már ásakar hann og RÚV opinberlega um að vera gerendur í málinu. Þorsteinn Már hafði áður, í september 2015, farið í viðtal við Helga Seljan í Kastljósi til að ræða málið.

Eftir fréttir Stöðvar 2, að kvöld 27. október, var Þorsteinn til viðtals hjá mbl.is.  Þar sagði hann m.a.: „Fyr­ir mér staðfest­ir þetta það sem var í raun aug­ljóst, að RÚV og Seðlabanki Íslands skipu­lögðu það sam­an hvernig átti að standa að þess­ari hús­leit. Að sjálf­sögðu er manni aðeins brugðið þegar þetta kem­ur upp eft­ir öll þessi ár.“

Þann 28. október 2019 mætti Þorsteinn Már í viðtal við Bítið á Bylgjunni. Þar endurtók hann að málið hefði hafist að undirlagi Helga Seljan á þorrablóti 20. janúar 2012, en önnur útgáfa af þeirri sögu hafði áður verið sett fram í Bókinni „Gjaldeyriseftirlitið – vald án eftirlits“ eftir sagnfræðinginn Björn Jón Bragason sem kom út fyrir jólin 2016. Þá snerist hún hins vegar um að fyrrverandi sjómaður Síldarvinnslunnar hafi sagt Helga frá vangaveltum um að Samherji væri að selja karfa til dótturfélaga sinna erlendis á undirverði á umræddu þorrablóti, ekki að „taka“ ætti Þorstein Má. Samkvæmt frétt í Fréttatímanum frá því í desember 2016 keypti Samherji heilt upplag af umræddri bók og gaf starfsmönnum sínum í jólagjöf. 

Auglýsing
Í viðtalinu við Bítið sagði hann meðal annars að húsleitin hjá Samherja 2012 hafi verið „ruddalegasta húsleit sem hefur verið framkvæmd á Íslandi og hún var gerð í samstarfi við RÚV, þeir voru mættir á undan og greinilega allt þaulskipulagt, það hefur aldrei farið á milli mála.“

Þorsteinn sagði einnig að RÚV hefði farið fram með offorsi gegn Samherja og að RÚV væri ekki minni gerandi í málinu en Seðlabanki Íslands. „Er eðlilegt að ríkisfjölmiðill sé að reyna að búa til glæp með með stofnun sem á að vera mesta virðingarstofnun landsins?“ Þorsteinn sagði hins vegar að Samherji myndi ekki stefna RÚV vegna málsins. 

Ásakaði RÚV um að nálgast sig á „fölskum forsendum“

Í yfirlýsingu Samherja frá því í fyrradag er sleginn sambærilegur tónn. Þar er haft eftir Þorsteini Má að öll starfsemi Samherja og tengdra félaga hafi verið undir ítarlegri rannsókn árum saman án þess að nokkuð athugavert hafi fundist. „Var allt okkar bókhald, tölvupóstar og öll önnur gögn skoðuð ítarlega, þar með talið þeirra félaga sem sinntu útgerð við strendur Afríku frá árinu 2007. Við munum ekki nú, frekar en þá, sitja undir röngum og villandi ásökunum frá fyrrverandi starfsmanni sem enn á ný eru matreiddar af sömu aðilum og fjölmiðlum og í Seðlabankamálinu.“ 

Þar sagði enn fremur að Samherji hefði sérstaklega óskað eftir að fá að setjast niður með RÚV og fara yfir upplýsingar sem fyrirtækið taldi skipta máli í tengslum við fyrirhugaða umfjöllun. „Þeirri beiðni hefur jafnharðan verið hafnað og hefur Ríkisútvarpið aðeins talið sér fært að ræða við okkur fyrir framan myndavélar. Teljum við þær upplýsingar sem við búum yfir vera með þeim hætti að slíkt væri tillitslaust vegna hagsmuna þeirra einstaklinga sem málið varðar.“

Í Fréttablaðinu í gærmorgun var svo haft eftir Þorsteini Má að RÚV hefði reynt að nálgast Samherja „á fölskum forsendum“ og að stjórnendur fyrirtækisins teldu að RÚV væri ekki að sinna hlutleysisskyldu sinni. 

Í engu ofangreindra viðtala, þar sem Þorsteinn Már ræddi ítrekað um RÚV, nafngreindan fréttamann og meinta aðför þeirra gegn sér, minntist hann á að yfirvofandi væri ítarleg umfjöllun um meintar mútugreiðslur og skattasniðgöngu í sama miðli né að búið væri að upplýsa hann um efnisatriði þeirrar umfjöllunar. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Eldgos hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli þann 19. mars síðastliðinn.
„Nýr ógnvaldur“ við heilsu manna kominn fram á suðvesturhluta Íslands
Lungnalæknir segir að lítið sé vitað um langtímaáhrif vegna gasmengunar í lágum styrk til lengri tíma og áhrif kvikugasa í mjög miklum styrk í skamman tíma á langtímaheilsu. Nauðsynlegt sé að rannsóknir hefjist sem fyrst.
Kjarninn 7. maí 2021
Viðsnúningur Bandaríkjanna í óþökk lyfjarisa
Óvænt og fremur óljós stefnubreyting Bandaríkjanna varðandi afnám einkaleyfa af bóluefnum gegn COVID-19 hefur vakið litla kátínu í lyfjageiranum. Deildar meiningar eru um hvort afnám einkaleyfa kæmi til með að hraða framleiðslu bóluefna.
Kjarninn 7. maí 2021
Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.
Ísland skoðar að kaupa 100 þúsund skammta af Spútnik V og vill fá þorra þeirra fyrir 2. júní
Viðræður hafa átt sér stað milli fulltrúa íslenskra stjórnvalda og þeirra sem framleiða og markaðssetja hið rússneska Spútnik V bóluefni. Ísland myndi vilja fá að minnsta kosti 75 þúsund skammta fyrir 2. júní.
Kjarninn 7. maí 2021
Tæknivarpið
Tæknivarpið
Tæknivarpið – Sonos fær uppreist æru og Framsóknarmaður vill aldurstakmark á snjalltæki
Kjarninn 7. maí 2021
Bólusetningar ganga nú mjög hratt fyrir sig á Íslandi og samhliða dregur úr takmörkunum.
Fjöldatakmarkanir hækkaðar í 50 manns frá og með næsta mánudegi
Opnunartími veitingastaða verður lengdur um klukkustund, leyfilegur fjöldi í verslunum tvöfaldast, fleiri mega vera í sundi og fara í ræktina. Grímuskylda verður hins vegar óbreytt.
Kjarninn 7. maí 2021
Skálað á kaffihúsi í Danmörku.
Ýta við ferðaþjónustunni með 32 milljarða króna „sumarpakka“
Danska ríkisstjórnin ætlar að setja 1,6 milljarða danskra króna, um 32 milljarða íslenskra, í „sumarpakka“ til að örva ferðaþjónustu landsins.
Kjarninn 7. maí 2021
Kvótinn um 1.200 milljarða króna virði – Þrjár blokkir halda á tæplega helmingi hans
Miðað við síðustu gerðu viðskipti með aflaheimildir þá er virði þeirra langtum hærra en bókfært virði í ársreikningum útgerða. Í næstu viku munu örfáir eigendur útgerðar selja tæplega 30 prósent hlut sinn í henni.
Kjarninn 7. maí 2021
Páll Magnússon er formaður allsherjar- og menntamálanefndar.
Nefnd búin að afgreiða fjölmiðlastyrki og umsóknarfrestur verður til loka maímánaðar
Meirihluti allsherjar- og menntamálanefndar hefur skilað áliti um stuðningskerfi til fjölmiðla. Þar er lagt til að þrengja skilyrði fyrir stuðningi úr ríkissjóði og gildistími laganna er færður í eitt ár.
Kjarninn 7. maí 2021
Meira úr sama flokkiInnlent