Samherji sagður hafa mútað ráðherrum til að komast yfir kvóta í Afríku

Í Kveiki í kvöld sagðist fyrrverandi yfirmaður hjá Samherja í Namibíu hafa tekið þátt í að greiða mútur til háttsettra ráðamanna í landinu til að tryggja Samherja kvóta. Það hafi verið gert með aðkomu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja.

Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson eru helstu stjórnendur og eigendur Samherja.
Kristján Vilhelmsson og Þorsteinn Már Baldvinsson eru helstu stjórnendur og eigendur Samherja.
Auglýsing

Hópur sem inniheldur meðal annars sjávarútvegs- og dómsmálaráðherra Namibíu, hefur fengið á annan milljarð króna greiddan frá Samherja á undanförnum árum. Auk þess hafi ráðherra í Angóla fengið greiðslur. Í sérstökum tvöföldum Kveiksþætti sem sýndur var á RÚV í kvöld kom fram að vísbendingar séu um að þarna sé um mútugreiðslur að ræða til að komast yfir kvóta í landinu á sem ódýrastan hátt. Allir hlutaðeigandi sem svöruðu fyrirspurnum Kveiks neituðu að um mútur væri að ræða þótt að hluti viðtakendanna hafi gengist við því að taka við fé frá Samherja. Umfjöllunin var unnin í samstarfi Kveiks, Stundarinnar, Al Jazeera og Wikileaks.

Þar sagði einnig að starfshættir Samherja í Namibíu, og þeirra sem fyrirtækið á að hafa greitt mútur til, hafi verið til rannsóknar hjá þremur eftirlitsstofnunum í landinu, meðal annars spillingarlögreglunni þar. Auk þess eru yfirvöld á Íslandi og í Noregi meðvituð um málið. 

Umfjöllunin er byggð á þúsundum skjala og tölvupóstsamskipta starfsmanna Samherja þar sem starfsemi fyrirtækisins, eins þess stærsta á Íslandi, í Namibíu síðastliðinn tæpan áratug er til umræðu. Gögnunum var lekið til Wikileaks og Kveikur hefur, ásamt Stundinni, unnið ítarlega umfjöllun úr þeim. 

Auglýsing
Auk þess var í Kveik birt viðtal við Jóhannes Stefánsson, sem var verkefnastjóri Samherja í Namibíu fram á árið 2016, þar sem hann gengst við því að hafa brotið lög fyrir hönd Samherja þegar fyrirtækið náði í umtalsverðan kvóta í landinu. Þar kom einnig fram að Jóhannes hefði gefið sig fram við yfirvöld í Namibíu, hefði fengið lagalega stöðu uppljóstrara og aðstoðaði nú við rannsókn þeirra á starfsháttum Samherja. 

Jóhannes var sérstaklega nefndur á nafn í yfirlýsingu sem Samherji sendi frá sér í gær vegna yfirvofandi umfjöllunar um starfshætti fyrirtækisins og sagt að honum hefði verið sagt upp störfum hjá Samherja árið 2016 vegna „óásættanlegrar framgöngu hans og hegðunar“. Það hafi gerst í kjölfar þess að Samherji hefði orðið „þess áskynja í ársbyrjun 2016 að ekki væri allt með felldu í rekstrinum í Namibíu“ og sent íslenskan fyrrverandi rannsóknarlögreglumann til landsins til að rannsaka málið. 

Ekkert gert nema með aðkomu Þorsteins

Jóhannes sagði í Kveik í kvöld að hann hefði ekki hafa gert neitt í Namibíu nema án aðkomu Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja. Þar kallaði hann starfsemi Samherja í Namibíu „skipulagða glæpastarfsemi“ þar sem fyrirtækið græði á auðlindum landsins en hafi svo fært alla peninganna sem það græddi út úr því til að fjárfesta annars staðar í heiminum. 

Jóhannes sagði í þættinum að hann hefði meðal annars greitt 60 þúsund Bandaríkjadali í reiðufé með því að setja þá í íþróttatösku sem milliliður hafi síðan komið til sjávarútvegsráðherra Namibíu. Síðar hafi greiðslurnar orðið faglegri og farið fram í formi millifærslna vegna m.a. ráðgjafar og húsaleigu, en endað á bankareikningum í Namibíu og Dubaí. Alls hafi Bernhard Esau, sjávarútvegsráðherra Namibíu, tengdasonur hans, frændi tengdasonarins og  dómsmálaráðherra þess lands fengið að minnsta kosti um 1,4 milljarð króna frá Samherja á síðustu fimm árum í greiðslur vegna aðstoðar við að komast yfir kvóta í landinu. 

Samkvæmt íslenskum lögum varðar það allt að fimm ára fangelsi ef íslenskur ríkisborgari mútar eða gerir tilraunir til að múta fulltrúa erlends ríkis eða einhverjum sem segist geta haft áhrif á slíkan fulltrúa. 

Settu „svart andlit“ á eignarhald

Í þættinum er því lýst að Samherjamenn hafi komist í kynni við mann sem heitir Tamson Hatukulipi, kallaður Fitty, sem er tengdasonur sjávarútvegsráðherra Namibíu, Bernhard Esau, og samið við hann um að hann ætti að tryggja Samherja kvóta til að veiða. Fitty kynnti lykilstjórnendur Samherja svo fyrir tengdaföður sínum. 

Í umfjöllun Kveiks kom fram að tveir aðrir menn, náfrændi Fittys sem heitir James og maður sem heitir Sacky Shangala, nú dómsmálaráðherra Namibíu, myndi kjarnann í þeim hópi sem hjálpaði Samherja gegn greiðslu að komast yfir kvóta í landinu. Þar kom einnig fram að Þorsteinn Már og Aðalsteinn hefðu hitt Esau sjávarútvegsráðherra á leynifundi 2012 í Namibíu. 

Í Kveik var því lýst hvernig komist hafi verið framhjá kröfum um namibískt eignarhald á kvóta með því að setja það sem kallað var „svart andlit“ á eignarhald þeirra fyrirtækja sem sett voru upp. Baksamningar áttu svo að tryggja Samherja 75 prósent eiginlegt eignarhald á ávinningi sem yrði til. Sjávarútvegsráðherrann og hans fólk yrðu líka faldir hluthafar. 

Komist yfir þriðjung kvótans

Ísland sinnti þróunaraðstoð, í samstarfi við Sameinuðu þjóðirnar, í Namibíu frá 1990 og þar henni lauk árið 2010. Það þróunarsamstarf beindist einkum að sjávarútvegi. Þ.e. Ísland var að hjálpa Namibíu við að byggju upp kerfi utan um sjálfbæra þróun við nýtingu náttúruauðlinda. Framlag Íslands til þessa verkefnis var margþætt, og fólst meðal annars í því að leggja til tækni- og fjárhagsaðstoð auk sérþekkingar við uppbyggingu kerfanna. Alls fóru vel á annan milljarð króna í þessi verkefni á þeim 20 árum sem þau stóðu yfir, samkvæmt því sem kom fram í Kveik í kvöld. 

Vilji stóð til þess að Namibía gæti hagnast sem mest á nýtingu sjávarauðlinda sinna með því að kvótaleiga færi til þjóðarinnar, að störf myndu skapast í landi og á láði og að skattgreiðslur vegna starfsemi í landinu myndu styrkja efnahag þess. 

Í Kveik var greint frá því að þegar þróunaraðstoðinni lauk hafi Samherji birst í staðinn. Nú, tæpum áratug síðar, hafi fyrirtækinu tekist að komast yfir um þriðjung af hrossamakrílkvóta landsins. Um er að ræða um fimmtung alls þess afla sem Samherji veiðir í starfsemi sinni í heild. 

Jóhannes sagði í þættinum í kvöld að það hafi verið skýr stefna Samherja að komast hjá því að greiða skatta í Namibíu af þeim hagnaði sem skapaðist þar, meðal annars með því að færa hagnaðinn til landa þar sem skattar voru litlir eða engir, meðal annars á Kýpur, með viðkomu á eyjunni Máritíus. Allir peningar Samherja voru hins vegar sagðir enda í Noregi, inni á reikningum í norska bankanum DNB, sem er að hluta til í eigu norska ríkisins. 

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Frá undirritun lífskjarasamningsins í apríl árið 2019.
Forsendur brostnar og örlög lífskjarasamningsins ráðist 30. september
Forsendunefnd ASÍ og SA hefur komist að þeirri niðurstöðu að forsendur lífskjarasamningsins frá 2019 séu brostnar, hvað aðgerðir stjórnvalda varðar. Formaður VR segir að örlög samninganna muni ráðast á fundi samninganefnda ASÍ og SA 30. september.
Kjarninn 20. september 2021
Sonja Ýr Þorbergsdóttir
Einkarekstur í heilbrigðisþjónustu er engin töfralausn
Kjarninn 20. september 2021
Þorvarður Bergmann Kjartansson
Þegar sumir hafa vald yfir öðrum
Kjarninn 20. september 2021
Hildur Gunnarsdóttir
Húsnæðispólitík og arkitektúr
Kjarninn 20. september 2021
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins
Gæti kostað 50-60 milljarða að gera 350 þúsund króna laun skatt- og skerðingalaus
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Ingu Sæland um að færsla á persónuafslætti frá „þeim ríku“ til hinna efnaminni geti fjármagnað 350 þúsund króna skattfrjálsa framfærslu.
Kjarninn 20. september 2021
Segja mikilvægt að undirbúa innviði og regluverk fyrir græna orkuframleiðslu
Íslendingar ættu að nýta þau tækifæri sem felast í orkuskiptum hérlendis og undirbúa innviði og regluverk fyrir samkeppnishæfa framleiðslu á kolefnislausum orkugjöfum, að mati tveggja verkfræðinga hjá EFLU.
Kjarninn 20. september 2021
Jóhann Friðrik Friðriksson
Heilbrigðiskerfi ekki óheilbrigðiskerfi
Kjarninn 20. september 2021
Vikurnáman yrði austan við Hafursey á Mýrdalssandi.
Vörubílar myndu aka 120 ferðir á dag með Kötluvikur
„Þetta er ekkert smáræði og ég held að menn átti sig engan veginn á því hvað þetta er mikið umfang,“ segir Guðmundur Oddgeirsson, bæjarfulltrúi í Ölfusi, um fyrirhugaða vikurnámu á Mýrdalssandi og flutninga á efninu til Þorlákshafnar.
Kjarninn 20. september 2021
Meira eftir höfundinnÞórður Snær Júlíusson
Meira úr sama flokkiFréttaskýringar