Skúli Gunnar Sigfússon, oftast kenndur við Subway, hefur verið ákærður af embætti héraðssaksóknara, vegna atvika í rekstri félagsins EK1923 ehf. skömmu áður en það fór í gjaldþrot.
Frá þessu var greint á mbl.is í kvöld, og þar vitnað til ákærunnar sem ritstjórn mbl.is hefur undir höndum.
Samkvæmt frétt mbl.is byggir ákæran á því að millifærslur af reikningum félagsins, í aðdraganda gjaldþrots þess, hafi verið til þess fallnar að rýra efnahag félagsins. Fyrrverandi framkvæmdastjórar félaga í eigu Skúla, Guðmundur Hjaltason og Guðmundur Sigurðsson, eru einnig ákærðir.
Ákært er í þremur liðum, vegna tveggja millifærslna. Fyrst er um að ræða 21,3 milljóna millifærslu inn á reikning Sjöstjörnunnar í mars 2016, að því er fram kemur á vef mbl.is. Eru Skúli og Guðmundur Hjaltason ákærðir fyrir að hafa í sameiningu látið millifæra upphæðina. Óskaði Guðmundur eftir millifærslunni og staðfesti Skúli hana við starfsmann banka.
„Næsti liður ákærunnar nær til framsals á kröfu á hendur ríkinu sem EK1923 átti vegna úthlutunar á tollkvóta, en var framseld til Stjörnunnar. Var heildarupphæð kröfunnar 24,6 milljónir auk vaxta. Var framsalið undirritað af Skúla og Guðmundi Sigurðssyni, en í ákærunni kemur fram að ekkert endurgjald hafi komið fyrir. Ríkið féllst hins vegar aðeins á hluta kröfunnar og greiddi Stjörnunni 14,7 milljónir. Að lokum er ákært fyrir greiðslur frá EK1923 þann 11. Ágúst 2016 til tveggja erlendra birgja, en kröfurnar voru gjaldfallnar. Kemur fram í ákærunni að Guðmundur Hjaltason hafi fyrir hönd Skúla gefið þáverandi prókúruhafa EK1923 fyrirmæli um að framkvæma greiðslurnar,“ segir í umfjöllun mbl.is.
Skúli hefur sent mbl.is yfirlýsingu, þar sem hann segir ákæruna koma verulega á óvart, og að hún byggi á upplognum sökum. Hann neitar alfarið sök.