Samtök atvinnulífsins (SA) eru slegin yfir þeim fréttum sem birst hafa síðustu daga og snúa að viðskiptum Samherja í Afríku. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Samtökum atvinnulífsins, sem Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri og Eyjólfur Árni Rafnsson formaður skrifa undir.
Í yfirlýsingunni er vísað til þess að alvarleg mál hafi komið upp á yfirborðið, og er þar átt við umfjöllun Kveiks, Stundarinnar, Wikileaks og Al Jazeera.
„Alvarleg mál hafa komið upp á yfirborðið og einboðið að þau verði rannsökuð gaumgæfilega af þar til bærum yfirvöldum. Það er jákvætt að stjórn fyrirtækisins hafi lýst því yfir og hafist handa með afdráttarlausum aðgerðum að endurvinna traust.
Viðbrögð þurfa að vera í samræmi við alvarleika hinna meintu brota og fyrirtækið þarf að leggja spil sín á borðið gagnvart þeim eftirlitsaðilum sem í hlut eiga. Það eru heildarhagsmunir okkar allra að þessi mál upplýsist fljótt og að orðspor þjóðarinnar og atvinnulífs á Íslandi, innanlands sem utan, skaðist sem minnst vegna þeirra.
Nú þarf að leiða í ljós hvort og hverjar af þessum alvarlegu ásökunum eigi við rök að styðjast. Reynist svo vera þá þarf að senda skýr skilaboð um að háttsemi af þessu tagi verði ekki liðin, hvorki í atvinnulífinu hér á landi né annars staðar þar sem íslensk fyrirtæki hafa starfsemi,“ segir í yfirlýsingu SA.